Margir halda að fullorðnir séu fréttasjúkir og börnin hangi í símum eða tölvum alla daga. En svo er ekki raunin. Í sumum tilvikum getur það meira að segja verið öfugt. Mikill áhugi er sem dæmi á fréttum í Háteigsskóla í Reykjavík. Í 5. bekk skólans gefa tveir nemendur út fréttablað og aðrir halda úti fréttastofu á YouTube. Þar er ekki talað við nein smápeð heldur ráðherra og borgarfulltrúa.
Finnst gaman að gefa út blað
Vinirnir Þröstur Flóki Klemensson og Elias Joaquin Burgos eru ellefu ára nemendur í 5. bekk í Háteigsskóla í Reykjavík. Í janúar hófu þeir útgáfu á vikublaði og hafa þeir stór plön um frekari útgáfu í framtíðinni.
Þeir Þröstur og Elias svöruðu nokkrum spurningum um blaðaútgáfuna.
Af hverju gefið þið út blað? Af því að okkur finnst það skemmtilegt.
Hvaða efni er í blaðinu? Það eru fréttir, íþróttir og meiri fréttir.
Skrifið þið allt sjálfir? Við skrifum ekki alveg allt sjálfir. En flestu breytum við og notum okkar eigin orð.
Hvað gefið þið út mörg blöð? Eitt í viku en í hvert sinn prentum við í kringum sjötíu eintök.
Hverjir lesa blaðið? Núna les árgangurinn bara blaðið en við ætlum að reyna að gera þetta stærra í framtínni.
Lesið þið sjálf mikið af dagblöðum og tímaritum? Nei við lesum ekki það mikið af dagblöðum og tímaritum.
Hvað finnst ykkur skemmtilegast að lesa í blöðum? Uppfinningar og vísindi.
Fréttastofan á YouTube
Fjórir nemendur í Háteigsskóla eru líka án nokkurs vafa yngstu fréttamenn landsins. Þeir fylgjast vel með málefnum líðandi stunda og hafa frá því þeir voru í 4. bekk skólans haldið úti fréttastöð á YouTube sem heitir Fréttastofa áhugamanna um pólitík.
Fréttamennirnir ungu gerðu sex þætti fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík sumarið 2018 þar sem þeir ræddu við frambjóðendur um borgarlínu, lóðir fyrir trúfélög, staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og fleira.
Þeir gerðu líka átta þætti í anda Kveiks og rannsóknarblaðamennsku. Þar er fjallað um bíla, umhverfismál og margt fleira.
Síðustu þættir þessara ungu fréttahauka fjölluðum um stjórnmál og ræða þeir þar við ráðherra landsins.
Fréttamennirnir ungu flytja líka fréttir hver að öðrum. Á dögunum þegar nýr fréttastofustjóri tók við sjónvarspfréttunum var greint frá því í Vikublaðinu og rætt við þann nýráðna.
Hér að neðan má sjá einn þátt fréttastofunnar í Háteigsskóla á Youtube.
Fleiri þætti má sjá á YouTube-rás fréttastofu áhugamanna um pólitík.