Askur Yggdrasils er tré sem í norrænni goðafræði stendur upp í gegnum heiminn allan. Hver hlutur hans nær í hvern hluta heimsins. En núna er Askur Yggrasils líka niðri á Granda, við Mýrargötu, en þar stendur nú völundarhús Asks Yggrasils, þar sem finna má alls kyns undarleg rými sem byggð eru á norrænni goðafræði. Það er íslensk-breski listahópurinn Huldufugl sem byggði Völundarhúsið og við slógum á þráðinn til Huldufuglsins Nönnu Gunnarsdóttur og spurðum hana hvernig þetta varð til.
„Við vorum nýflutt til Íslands og vildum vekja athygli á hópnum okkar hérlendis, Huldufugli, þegar við sáum að Landsbankinn og Höfuðborgarstofa voru að auglýsa eftir spennandi verkefnum þar sem þau voru að veita styrki fyrir Menningarnótt. Ég stakk upp á að búa til völundarhús, þar sem öllum finnst gaman í völundarhúsum, bæði fullorðnum og börnum. Við vildum líka gera það listrænt en ekki bara völundarhús sem fólk villist í, þar sem Huldufugl er listahópur, og ákváðum að hafa norræna goðafræði sem þema. Þetta völundarhús er því meira eins og upplifun á mismunandi rýmum og snýst meira um að uppgötva ný herbergi frekar en að finna leiðina út. Ég heillaðist af norrænni goðafræði þegar ég lærði um hana í menntaskóla, og þar sem hún lýsir öllum heiminum og náttúrunni þá er af nógu að taka sem innblástur fyrir hönnunina,“ segja Nanna okkur, en Huldufuglarnir eru tveir, hún Nanna og Owen Hindley.
Það koma þó miklu fleiri að Völundarhúsinu, enda segir hún að „Huldufugl leitast eftir að blanda saman mismunandi listformum, og eru því allar sýningar hópsins samstarfssýningar með öðru listafólki úr mismunandi geirum.“
Þeir listamenn sem koma einnig að listaverkum innan völundarhússins, bæði í sviðsmyndagerð og hljóði, eru þau Agnar Stefánsson, Angela Salcedo, Atli Bollason, Bergdís Júlía Jóhannsdóttir, CGFC, Hafdís Bjarnadóttir, ÍRiS, Julius Rothlaender, Origami Ísland, Philip Ob Rey, René Boonekamp, Shu Yi – og auðvitað Nanna og Owen.
Frá Bifröst til Yggrasils
En hvaða áhrif úr norrænni goðafræði birtast í verkinu?
„Innsetningarnar byggja allar lauslega á norrænni goðafræði, og er auðveldara að finna tengingu úr sumum rýmum frekar en öðrum. T.d. má finna Ask Yggdrasils, tré lífsins, í miðju völundarhússins en til að komast þangað þurfa allir að fara yfir Bifröst og velja hvort þeir fari gegnum Vanaheim eða Helheim á leiðinni (eða bæði). Svo má líka finna tengingar við Miðgarð og Ásgarð, og vígið á Baldri.“
Einn hluti völundarhússins er svo gagnvirkt tónlistarverk, „þar sem gestum býðst að spila tónlist með steinum. Þetta er tónlistar-listainnsetning sem er gerð af Owen og má finna í enda eins gangs. Aðrir hlutar völundarhússins eru ekki jafn gagnvirkir, þó fólk þurfi að beygja sig og teygja til að komast í gegn, fikra sig gegnum skuggaleg rými, og renna sér niður rennibraut á einum tímapunkti.“
Hin fullkomna paradís
En hver er þessi Huldufugl annars? Jú, Huldufugl samanstendur eins og áður segir af leikkonunni Nönnu Gunnars og list-forritaranum Owen Hindley. Þau hafa bæði búið í London síðastliðin ár en fluttu til Íslands í maí 2016.
„Við höfum haft áhuga á því um langt skeið að blanda saman leiklist og stafrænni list og stofnuðu Huldufugl með það að markmiði. Huldufugl var stofnað fyrir ári síðan og var fyrsta hugmyndin að setja upp stærðarinnar sýningu í Reykjavík undir nafninu ‘Perfect Paradise’ – Fullkomin paradís. Sú sýning mun verða eins konar lifandi kvikmyndasýning, þar sem leiklist, sviðsmynd og stafræn list spila stór hlutverk. Hingað til hefur Huldufugl gert nokkrar smærri sýningar, fyrstu tvær í London og eina í Reykjavík. Völundarhús Asks Yggdrasils er stærsta verkefni Huldufugls til þessa, en hópurinn stefnir enn á að setja Perfect Paradise upp á komandi ári.“
Völundarhúsið verður næst opið á milli 19-22 á morgun, föstudag, og svo verða kórtónleikar á laugardaginn kl. 14 með ungum íslenskum krökkum sem ætla að syngja frumsamið lag byggt á Völuspá. Svo verður opið á mánudag og föstudag í næstu viku og loks verður lokapartí þriðjudaginn 20 september með Svavari Knút, ÍRiS og Bláskjá auk þess sem Húlladúllan leikur listir sýnar.
Nákvæmir opnunartímar eru hér fyrir neðan – og svo má skoða heimasíðu Huldufugls eða fylgjast með fuglinum á Facebook.
Opnunartímar:
Föstudagur 9. sept 19-22
Laugardagur 10. sept 14-17 (Völuspá tónleikar+dans)
Mánudagur 12. sept 9-17 (skólaheimsóknir)
Föstudagur 16. sept 19-22
Þriðjudagur 20. sept 19-22 (Lokapartý, tónleikar með Svavari Knút, ÍRiS og Bláskjá og Húlladúllan leikur listir sínar).