Vinabönd: Gaman að föndra saman

Vinabönd er skemmtilegt föndur

Tóta er búin að búa til nokkur flott vinabönd með aðferð sem hún er nýbúin að læra

Krakkar hafa lengi haft ánægju af því að búa til vinabönd af ýmsu tagi. Þau er hægt að bera á úlnliðnum eða hengja á pennaveskið sitt eða skólatöskuna. Hægt er að bítta við vini sína og svo er líka sniðugt að búa til tvö eins og gefa vini sínum annað sem merki um sanna vináttu.

Sumir krakkar eru jafnvel svo afkastamiklir og sniðugir að þeir búa til alveg fullt og halda síðan tombólu þar sem vinaböndin og annað sambærilegt föndur eru vinningar.

 

Tóta lærði að búa til vinabönd í Dalheimum

Þóranna Guðrún er 7 ára stelpa í 3. bekk í Laugarnesskóla og er oftast kölluð Tóta. Eftir skóla fer hún stundum í frístundaheimilið Dalheima í Laugardalnum og um daginn lærði hún þar nýja og skemmtilega aðferð við að búa til vinabönd. Nú er hún búin að búa til nokkur flott bönd og auk þess hefur hún kennt bæði pabba sínum og langömmu aðferðina.

Langamman var sérstaklega hrifin af aðferðinni og gaf Tótu fullt af flottu bandi til framleiðslunnar. Þar að auki fann hún sérstakar græjur til framleiðslunnar á danskri vefsíðu og er alvarlega að íhuga að panta sér svoleiðis.

Aðferð og undirbúningur eru ekki flókinn en byrja þarf á því að búa til sérstakt verkfæri sambærilegt og sést á myndinni hér fyrir neðan. Hér kemur lýsing á hvernig það er gert:

 1. Finndu sæmilega þykkan og stífan pappír og klipptu út hring u.þ.b. 10 cm í þvermál. Nákvæm stærð skipti ekki máli en sniðugt getur verið að strika kringum nokkuð stóra bolla eða niðursuðudós.
 2. Gerðu gat í miðjuna á pappírnum með skæraoddinum.
 3. Klipptu 8 rifur inní jaðar pappírsins með nokkuð jöfnu millibili, u.þ.b. 1/2-1 cm inní pappírinn.
Vinabönd - pappírshringur

Hér er dæmi um pappírshring í hentugri stærð til að búa til vinabönd

Þá er verkfærið tilbúið og hægt að vinda sér beint í framkvæmdina sjálfa. Hér kemur lýsing á henni:

 1. Finndu band og klipptu það niður í 4 jafnlanga búta. Heppileg lengd er einn barnsfaðmur eða kannski einhvers staðar á bilinu 100-150 cm. Skemmtilegt er að hafa böndin af 4 mismunandi litum og þá verður útkoman litrík eftir því.
 2. Leggðu nú böndin saman í tvennt þannig að þú getir tekið alla 8 endana saman í aðra höndina.
 3. Hnýttu alla endana saman í þykkan hnút. Ekki herða hann of mikið og jafnvel getur verið sniðugt að gera tvöfaldan hnút.
 4. Þræddu nú böndin í gegnum miðjugatið á pappírsverkfærinu okkar og togaðu varlega í svo að hnúturinn úr fyrra skrefi nemi við gatið en renni ekki í gegn.
 5. Jafnaðu böndin og kipptu í miðju (fjærst hnútnum) þannig að núna ertu með 8 bönd sem hanga neðan úr pappírshringnum.
 6. Kipptu eitt bandið í burtu upp við hnútinn svo eftir standa 7.
 7. Tylltu böndunum 7 í rifurnar á jaðri pappírshringsins þannig að ein rifa sé lausn. Tóta mælir með því hafa ekki samlit bönd hlið við hlið en annars má maður bara raða þessu eins og maður vill.
 8. Snúðu nú pappírshringnum að þér þannið að hnúturinn snúi niður og lausa rifan að þér.
 9. Losaðu 3. band til hægri miðað við lausu rifuna og tylltu því í hana.
 10. Snúðu hringnum þannig að lausa rifan snúi niður og endurtaktu skref 9. í þriðja til fjórða hvert skipti sem snúið er er gott að toga laust í hnútinn og sjá þá jafnframt hvernig vinabandið lengist jafnt og þétt.
 11. Haltu þessu áfram allt þar til spottarnir eru orðinir of stuttir til að halda áfram eða þér finnst vinabandið orði nógu lang. Þá bindurðu saman lausu endana í hnút, losar bandið úr hringnum og snyrtir endana með skærum og þá er vinabandið tilbúið.

Einfalt ekki satt? Kíktu á myndbandið hér fyrir neðan þar sem hún Tóta sýnir hvernig hún gerir þetta. Góða skemmtun.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd