Menningarnótt 2016: Villihrafninn og dúóið hans

DúóStemma1
Heyrðu villuhrafninn mig er hljóðsaga sem Dúó Stemma flytur á Menningarnótt 2016. Það eru hjónin Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari og Steef van Oosterhout slagverksleikari sem skipa dúóið.

„Við segjum söguna í tali, tónum og hljóðum,“ segja þau og útskýra svo söguna betur: „Sagan er um Fíu frænku og Dúdda besta vin hennar. Röddinni er stolið af Dúdda og þá hefst mikil leit að henni. Bokki dvergur, Villuhrafninn og Hrappur rappari koma meðal annarra við sögu. Allt endar svo vel að lokum eins og í góðum ævintýrum.“

Hvernig varð svo þessi saga til?

„Sagan varð til í kollinum á okkur þegar við fórum að leika okkur með hljóð og ýmis lög. Sagan spannst áfram eftir hljóðunum og við vissum ekki hvert hún stefndi fyrr en í lokin.“

DúóStemma2
Og hvaða hljóðfærum eigum við svo eftir að heyra í?

„Við leikum á víólu og slagverk. Í þessari sögu er slagverk miklu meira en bara trommur, heldur ýmis heimatilbúin hljóðfæri og hlutir sem fundist hafa á víðavangi og hægt er að spila á.“

Svo er lokaspurningin, hvernig varð þetta dúó til?

„Við köllum okkur Dúó Stemmu því það stemmir allt hjá okkur! Við erum gift og eigum tvo stráka. Okkur fannst gaman að búa til sögur fyrir þá þegar þeir voru í leikskóla. Svo þróaðist þetta hjá okkur og í dag, 11 árum seinna höfum við spilað í fjölmörgum leik- og grunnskólum hér á landi og í útlöndum.“

Fyrir þá sem vilja vita meira þurfa svo að drífa sig í Hörpu á næstu Menningarnótt kl. 16.15 og heyra ævintýrið í allri sinni dýrð.

Hvað ætlið þið að gera á Menningarnótt 2016?

Við tókum saman lista yfir alveg lifandi hellings af áhugaverðum viðburðum á Menningarnótt sem henta fyrir alla fjölskylduna. Smellið og skoðið hvað við fundum til á Menningarnótt!

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd