Viðtal við Ingunni: Æsispennandi og skemmtilegt keppni í Lego

Einbeitingin skín af börnunum. MYND / Kristinn Ingvarsson

Einbeitingin skín af börnunum. MYND / Kristinn Ingvarsson

Legótæknikeppnin FIRST LEGO League verður haldin laugardaginn 12. nóvember í Háskólabíói. Þetta er tólfta skiptið sem keppnin er haldin hér á landi og stækkar hún í hvert sinn.

Þetta árið er 21 lið skráð til leiks og er þemað samstarf manna og dýra. Sigurliðið hlýtur ferðastyrk og á kost á því að taka þátt í Skandínavíu-keppninni sem fram fer í Noregi í desember.

Sprengju-Kata verður kynnir keppninnar og kostar ekkert að koma og fylgjast með. Það kostar heldur ekkert á opið hús í Háskólabíó á sama tíma þar sem áherslan verður á tengsl manna og dýra.

Meira um málið á http://firstlego.is/

Sprengju-Kata verður kynnir Legó-keppninnar. MYND / Kristinn Ingvarsson

Sprengju-Kata verður kynnir Legó-keppninnar. MYND / Kristinn Ingvarsson

Keppni fyrir 10-16 ára

Keppnin er fyrir börn og ungmenni á aldrinum 10 til 16 ára. Í hverju liði eru hámark 10 keppendur og a.m.k. einn leiðbeinandi. Liðin keppa sín á milli við að leysa þrautir með forrituðum vélmennum. Auk þess eru liðin dæmd út frá rannsóknarverkefni, hönnun/forritun á vélmenni og liðsheild.

Ingunn Eyþórsdóttir

Ingunn Eyþórsdóttir

Við erum forvitin um þennan spennandi viðburð og bönkuðum uppá í Háskóla Íslands. Þar svaraði Ingunn Eyþórsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Menntavísindasviðs en hún á sæti í stýrihópi sem heldur utan um keppnina hér á landi.

Ingunn segir:

„FIRST LEGO League (FLL) er verkefni sem tvö fyrirtæki standa að. Annað að nafni FIRST sem hefur það að markmiði að efla áhuga nemenda á vísindum og tækni með keppnum og LEGO Group sem flestir þekkja. Lego býður upp á ótal útfærslumöguleika, er uppspretta mikillar sköpunar, höfðar til fólks með ólíka styrkleika og breiðs aldurshóps.“

Margir eignast góða vini í keppninni

Hver teljið þið að ávinningurinn sé fyrir keppendur?

„Keppnin byggir á spennandi verkefnum sem jafnframt örva nýsköpun, byggja upp sjálfstraust og efla samskipta- og forystuhæfni. Þetta er því mjög þverfaglegt og reynir á fjölbreytta styrkleika og sterka liðsheild. Hvert lið hefur einn eða fleiri leiðbeinendur úr sínum skóla og eru það miklir eldhugar sem veljast til slíkra verka því undirbúningsferlið er afar krefjandi. Þessu fylgir mikil samvera og samvinna og því eignast margir ljúfar minningar og góða vini. Keppendur hafa orð á því að þetta sé dýrmæt reynsla og sumir keppa ár eftir ár.“

 

Verðlaun fyrir bestu liðsheildina

Vinningsliðið fær verðlaun í formi ferðastyrks og gefst kostur á að taka þátt í úrslitakeppni FIRST LEGO League Skandinavía sem haldin verður í Bodø í Noregi þann 3. desember næstkomandi. Auk verðlauna fyrir sigur í keppninni eru veitt verðlaun fyrir bestu lausn í hönnun og forritun á vélmenni, besta rannsóknarverkefnið og bestu liðsheildina.

Það er skemmtilegt og krefjandi að forrita Legó. MYND / Kristinn Ingvarsson

Það er skemmtilegt og krefjandi að forrita Legó. MYND / Kristinn Ingvarsson

BMX-hjól, hvalir og kappakstursbíll

Mikið verður í boði á opnu húsi í Háskólabíó.

Krumma verður með vinnustofur þar sem hægt verður að spreyta sig á Lego-verkefnum undir leiðsögn sérfræðinga. Björgunarsveitarhundar Íslands mæta með sporhunda, býflugur frá Friðheimum verða til sýnis, og hvalasérfræðingur mun fræða gesti um hegðun hvala og hlýnun jarðar. Vísindasmiðja Háskóla Íslands verður opin upp á gátt með sínum skemmtilegu tækjum og tólum og þá verður rafknúinn kappakstursbíll Team Spark á staðnum. Loks munu strákarnir í BMX bros leika listir sínar á BMX-hjólum.

Þetta verður eitthvað!

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd