Viðtal: Rithöfundur fór á sólarströnd korter í jól

Bergrún og yngri sonur hennar njóta lífsins á Tenerife rétt fyrir jól.

Bergrún Íris Sævarsdóttir og yngri sonur hennar njóta lífsins á Tenerife rétt fyrir jól. Bergrún hefur aldrei áður farið til útlanda rétt fyrir jólin. „Einu sinni fórum við mamma í þykjustu-útlandaferð. Þá bókuðum við okkur herbergi á Hótel Keflavík og fórum þangað í mæðgnaferð, borðuðum góðan mat og versluðum á Hafnargötunni. Það er allsstaðar hægt að upplifa smá frí og óþarfi að leita langt yfir skammt,“ segir hún.

Fólk nýtir sumarfríið sumt hvert til að lyfta sér upp, brjóta hversdagslífið upp og bregða sér til útlanda. Það er örlítið óvenjulegra að fara í ferðalag erlendis í byrjun desember, ekki síst rithöfundar sem eiga bók í jólabókaflóðinu. Það gerði Bergrún Íris Sævarsdóttir, rithöfundur og myndlistarmaður, sem brá sér með fjölskyldunni í sólina á Tenerife. Bergrún myndskreytir barnabækur og var sjálf að gefa út bókina Viltu vera vinur minn?

„Þetta var mikil skyndiákvörðun, uppástungan kom frá eiginmanninum að kvöldi og morguninn eftir vorum við búin að bóka flug, hótel og allan pakkann. Við vissum þó ekkert hvað við værum að fara út í enda höfum við aldrei heimsótt Tenerife áður,“ segir Bergrún sem fór með manni sínum og tveimur börnum þeirra í tíu daga frí til Golf del Sur á Tenerife í byrjun jólamánaðar Ástæðan fyrir skyndiákvörðuninni var sú að maður hennar er í feðraorlofi sem lýkur um áramótin og töldu þau kjörið að nýta fríið hans með þessum hætti.

Sendi 1-2 tölvupósta af ströndinni

En hvað með jólabókaflóðið fyrir rithöfund?

Bergrún segist hafa hagrætt vinnunni til að komast í fríið, færði til fundi og skipulagði sig.

„Jólaverðtíðin er háannatími eigi maður bók í bókaflóðinu og flestir rithöfundar hafa ekki undan að kynna sig og bókina sína. Ég var svo heppin að hafa stillt því þannig upp að á meðan ég var úti birtust tvö viðtöl við mig auk frábærs bókadóms á Rás 2. Bókin mín var því á fullu í vinnu þó ég væri í smá fríi,“ segir hún. „Ég hafði séð fyrir mér að ég þyrfti að taka vinnuna með mér út en beitti mig hörðu og vann ekkert meðan ég var úti. Jú ég sendi einn eða tvö vinnutölvupósta, en annars var ég þæg í sólbaði!“

Tenerife kom mjög skemmtilega á óvart. Veðrið var einmitt mátulegt fyrir yngsta soninn, á bilinu 21-24°c frá morgni og langt fram á kvöld.

„Tenerife kom mjög skemmtilega á óvart. Veðrið var einmitt mátulegt fyrir yngsta soninn, á bilinu 21-24°c frá morgni og langt fram á kvöld.“

Tenerife kom á óvart

Og hvernig var?

„Sumir meina að Golf del Sur á Tenerife sé óspennandi staður fyrir ungt fólk og telja að borgarferð troðfull af safnarheimsóknum og menningu hæfi okkur betur. Tenerife kom hinsvegar mjög skemmtilega á óvart. Veðrið var einmitt mátulegt fyrir yngsta soninn, á bilinu 21-24°c frá morgni og langt fram á kvöld, ekki of kalt og ekki of heitt. Sá eldri hló mikið að því að hafa verið að búa til snjóhús á Íslandi og vera svo skyndilega farinn að gera sandkastala á ströndinni í útlöndum.“

Slakar meira á úti um aðventu

Mælirðu með því að fólk kúpli sig út eða breyti til öðru hverju fyrir jólin?

„Ég er sjálf mikið jólabarn en ekki hrifin af langri aðventu því ég verð bara of spennt og óþreyjufull. Mér fannst allavega mjög gott að skipta um gír og stytta aðventuna á þennan hátt. Þessi tími er hvort eð er yndislegastur þegar hann snýst um samveru fjölskyldunnar, frekar en langar biðraðir í búðum og leit af bílastæðum. Við sluppum einnig við verstu lægðina og hugsuðum til Íslendinganna sem þurftu að loka sig inni á meðan við lágum á sundlaugabakkanum,“ segir Bergrún.

Gott að fara í byrjun árs

Bergrún telur gott að fara út til heitari landa í janúar eða febrúar til að sleppa frá íslenska vetrinum. Kosturinn við að fara í ferðalag í desember sé sá að auðvelt sé að gleyma sér í jólastressinu.

„Einu sinni fórum við mamma í þykjustu-útlandaferð. Þá bókuðum við okkur herbergi á Hótel Keflavík og fórum þangað í mæðgnaferð, borðuðum góðan mat og versluðum á Hafnargötunni. Það er allsstaðar hægt að upplifa smá frí og óþarfi að leita langt yfir skammt.“

Hefur fjölskyldan þín verið erlendis um jól?

„Aldrei, en mig dauðlangar það. Ég þyrfti þá helst að hafa foreldra mína eða aðra úr fjölskyldunni með. Þá myndi ég vilja vera í góðan tíma og taka engar gjafir með út heldur væru jólagjafirnar keyptar á einhverjum sætum markaði. Ég sé okkur fyrir mér hlaupandi milli bása með 10 evru seðil að reyna að gera góð kaup og fela gjafirnar fyrir hinum,“ segir Bergrún Íris Sævarsdóttir.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd