
Vilhelm Anton Jónsson hefur skrifað heilan helling af vísinda- og fróðleiksbókum fyrir börn. Hann æfir líka enn með hljómsveitinni 200.000 naglbítar og langar til að gefa út nýja plötu með þeim.
Vilhelm Anton Jónsson var lengstum þekktastur sem Villi naglbítur, enda söngvari hljómsveitarinnar 200.000 naglbítar. Undanfarið hefur hann þó verið hvað duglegastur við að gefa út bækur. Nú síðast kom út Ráðgátubók Villa og seinna í haust kemur Skynvillubók í seríunni Vísindabækur Villa. Áður hefur Villi gefið út bækurnar Vísindabók Villa, Vísindabók Villa 2, Vísindabók Villa – Geimurinn og geimferðir (sem hann samdi með Sævari Helga Bragasyni) og Skutlubók Villa.
Hvað leiddi Villa úr tónlistinni í að skrifa barnabækur?
„Þetta byrjaði í raun með því að Sveppi vinur minn var að taka við barnatímanum á Stöð 2. Hann bað mig um að semja smá tónlist í þættina, sem mér fannst spennandi og góð hugmynd. Ég hef síðan gert meira af því, samdi til dæmis tónlistina í Horn á höfði, sem er frábært barnaleikrit eftir þá Berg Ingólfsson og Guðmynd Brynjólfsson og fékk verðlaun sem besta Barnasýningin hér um árið. En Sveppi bað mig líka að semja lög, svo spurði hann hvort ég gæti ekki komið í þættina og spilað þau. Þegar þetta var allt að bresta á þá var ég eiginlega bara í öllum þáttum að brasa eitthvað með honum. Það var aldrei nein U-beygja, þetta gerðist bara hægt og rólega,“ segir Villi sem hefur unnið á sviði, í sjónvarpi og í útvarpi samhliða bókaskrifum.
Vildi skrifa fræðibók fyrir börn
„Ég gekk svo mjög lengi með þá hugmynd í maganum að skrifa fræðibók eða vísindabók fyrir börn. Einfaldlega af því að mér finnst heimurinn okkar svo ótrúlega merkilegur og svo ótrúlega gaman að ræða um hann við börn og fullorðna. Mér finnst fátt skemmtilegra en að hitta vísindafólk sem útskýrir eitthvað fyrir mér og opnar einhverjar nýjar dyr að þessu kraftaverki sem við tilheyrum. Og mér finnst eiginlga jafngaman að miðla því svo til krakka, reyna að einfalda þannig að þau skilji og gera spennandi svo þau missi ekki af þessu stórkostlega undri sem vísindin eru að segja okkur um heiminn okkar.“
Að Ráðgátubókinni sjálfri, hvernig gátur eru þetta og hvaðan koma þær?
„Gáturnar í gátubókinni eru héðan og þaðan. Þetta byrjaði allt á því að ég og eldri sonur minn, Illugi, vorum oft að leika okkur með svona ráðgátur, sem krefjast þess að spyrjandinni svari já eða nei og veiti vísbendingar. Þá lýsir maður einhverjum aðstæðum og sá sem giskar á að komast að því hvað gerðist. Þetta finnst mér alveg frábært. Svo ákvað ég að bæta við þetta svona gömlum fyrir afa og ömmur og svo bara klassískum. Þetta eru gátur sem ég hef verið að safna að mér í dálítinn tíma. Ég held að það sé engin frumsamin. Það er svo gaman að heyra gátur sem maður man eftir þegar maður var lítill en man svo ómögulega hvert svarið var.“
Hver er galdurinn á bak við góða gátu?
„Ég held að það sé alveg pottþétt að þegar þú heyrir svarið þá segirðu: Ahhhhhh já, auðvitað – eða nei, hættu nú alveg. Mér finnst þær bestar sem beygla heila manns. En svo þegar maður heyrir svarið þá er það alveg augljóst.“
Erum föst í hugmyndakössum
Og hvernig er svo best að leysa þær?
„Hahahahaha, það er góð spurning. Í ráðgátuflokkinum, sem eru í uppáhaldi hjá mér, er oft best að hugsa ekki línulega, já ég veit, þetta hjálpar ekkert, við erum oft að flækja hlutina og erum föst inni í einhverjum hugmyndakössum sem við þurfum ekkert að vera í, bara af því að við förum beint þangað. Ég held að það sé best að vera mjög skapandi og frjór og skammast sín ekki fyrir að stinga uppá einhverju sem virðist alveg galið – það getur alveg verið rétt leið, eða a.m.k. upphafið á einhverju.“
Hvernig gátur eru í bókinni?
Fáum Villa til að gefa okkur dæmi um gátu:
„Jón og Ása liggja dauð á gólfinu í vatnspolli. Allt í kringum þau eru glerbrot. Hvað gekk hér á?“ segir hann og bætir svo dularfullur við að svarið sé aftast í bókinni.
Mögnuð skynvillubók í haust
Sem fyrr segir eru fleiri bækur á leiðinni frá Villa. Í haust kemur nefnilega skynvillubók.
„Hún verður alveg mögnuð. Skynvillur og skynjun eru svo heillandi. Hvernig virkar þetta allt? Hvað eru augun og eyrun og nefið að segja heilanum okkar? Skynjun er mjög spennandi ferli – ég veit ég má ekki segja það en það er ótrúlega flókið, sem þýðir bara að það er enn skemmtilegra að hugsa um skynjun og velta henni fyrir sér,“ segir Villi naglbítur.
Hann heldur áfram:
„Svo koma skynvillurnar inní þetta. Ég fjalla bara um sjónskynvillur í þessari, enda flóknara að gera annað í bók. Þá sjáum við t.d. tvö strik sem eru jafnlöng en eitthvað í kringum þau eða í bakgrunni gabbar heilann okkar svo hann dregur þá ályktun að annað sé mun lengra. Þetta er alveg frábært, því þá fer maður að hugsa um hver maður er líka. Erum við bara heilinn okkar? hann tekur allar ákvarðanir en ef við getum blekkt hann, hvern erum við þá að blekkja?
Bókin verður mjög flott. Það eru mjög margar skynvillur að skoða og útskýringar á þeim. Svo er reyndar magnað að við vitum stundum af hverju heilinn hagar sér svona. Sumt vitum við en annað höfum við ekki hugmynd um hvernig virkar.
Í bókinni verða svo líka tilraunir eins og hafa verið í hinum, sem er gaman að gera saman inno í eldhúsi. Kápumyndin á bókinn verður geggjuð. Ég mæli með að fólk kíki á hana og snú henni á hvolf. Þið skiljið þetta þegar bókin kemur.“
Langar að gera plötu með 200.000 naglbítum
Villi hefur verið duglegur jafnt í bókaskrifum, þáttagerð og tónlist til þessa og það virðist lítið lát á – og eftir áramót bætist leikhúsið við.
„Já, Vísindasýning Villa verður sýnd í Borgarleikhúsinu. Hún verður mjög flott, ég lofa því. Svo er hljómsveitin mín 200.000 naglbítar alltaf að æfa og semja. Okkur langar mikið að gera plötu í vetur. Ég vona að við náum því, það er alltof langt síðan við gerðum eitthvað. Ég er með nokkrar hugmyndir að bókum sem mig langar að gera. Bæði vísindabókum og svo skáldsögum líka. Svo finnst mér mjög gaman að gera útvarps- og sjónvarpsþætti og ég vona að ég fái tækifæri til að gera meira af því.“
Las fræðibækur í æsku
Hvaða bækur var Villi sjálfur svo að lesa sem krakki?
„Ég las eiginlega bara fræðirit fyrir krakka, þess vegna kemur þetta fæstum á óvart í kringum mig. Vinir mömmu og pappa og þau sjálf eru allt kennarar og gáfu mér bara fræðirit. Ég les mikið af fræðibókum enn í dag því mér finnst þetta svo ótrúlega spennandi allt og í raun skrýtið að einhver geti farið gegnum lífið án þess að vakna hvern einasta morgun og hugsa: Af hverju eru hlutirnir eins og þeir eru?
En af skáldsögum man ég bara eftir að hafa lesið þær bestu sem hafa verið skrifaðar: Bróðir minn ljónshjarta og Elsku Míó minn. Ég hef örugglega lesið eitthvað meira en man ekki eftir því,“ segir Vilhelm Anton Jónsson.