Viðtal: Markús eflir læsi barna með hryllingi

Markús Már Efraím les úr hryllingssagnabókinni Eitthvað illt á leiðinni er.

Markús Már Efraím les úr hryllingssagnabókinni Eitthvað illt á leiðinni er. MYND / Markús

„Mig langaði að sýna fram á að börn ættu skilið sömu virðingu og fullorðnir og að framlag þeirra til menningar væri alveg jafn merkilegt,“ segir Markús Már Efraím. Hann hefur síðasta misserið staðið fyrir ritsmiðjum um helgar á Kjarvalsstöðum fyrir börn á grunnskólaaldri.

Í vor stóð hann fyrir útgáfu hryllingsbókarinnar Eitthvað illt á leiðinni er. Í bókinni er safn sagna eftir nítján 8-10 ára börn. Öll sátu þau námskeið hjá Markúsi í ritlist og skapandi hugsun á frístundaheimilum frístundamiðstöðvarinnar Kamps í Reykjavík. Bókin hefur fengið mjög góða dóma, ekki síst á meðal barna.

 

Hryllingur á frístundaheimili

Markús segir mikilvægt að kenna börnum ritlist og að njóta heimsins er leynist í rituðu máli. Hryllingurinn er lykillinn að því að læra að njóta að semja og læra að lesa.

„Það er mikið metnaðarmál hjá mér að efla læsi barna og þetta er ein leið til þess að kveikja áhugann hjá þeim,“ segir hann.

„Í raun er undanfari þessara ritsmiðja sá að á frístundaheimilinu hafði ég verið að segja krökkunum draugasögur. Eitthvað var um að foreldrar hefðu áhyggjur af því að þetta myndi trufla svefn barnanna, en börnin sjálf vildu alls ekki að ég hætti. Mér datt því í hug að ef ég útskýrði fyrir krökkunum hvernig draugasögur yrðu til, hvaða reglur (og klisjur) lægu að baki þeim þá yrðu þau vonandi ekki jafn hrædd. Ef þau gætu sjálf skrifað draugasögur þá þyrftu þau ekki að óttast þær. Það virkaði. Ég gat lesið fyrir þau sögur og þau voru á nálum á meðan ég las söguna (eins og maður á að vera) en um leið og lestri lauk voru þau farin að greina söguna, pæla í sögusviðinu, hvað væri að virka vel og hvað ekki,“ segir hann.

 

Er hryllingur góður fyrir börn?

Markús segir sálfræðinga og kennara hafa skrifað um það lærðar greinar hvernig hrollvekjur eru hollar fyrir börn. Þessi hryllingur og spenna er eitt helsta einkenni þjóðsagna og ævintýra. Í þeim fólst að nýta frásögnina oftar en ekki sem kennsluefni í háttum og siðum.

„Ótti er jafn mikill hluti af tilveru barna og fullorðinna, og með lestri (og ritun) hrollvekja getum við tekist á við ótta okkar í öruggu umhverfi og fáum útrás fyrir erfiðar tilfinningar,“ segir Markús.

Hann bendir á að flest börn eru mjög hrifin af hrollvekjum og draugasögum sem geri þær að fullkomnum vettvangi til að auka áhuga barna á lestri og bókmenntum. Þeir sem haldi að ekki sé hægt að keppa við tölvur um athygli barna ættu að prófa að segja stórum krakkahópi draugasögur og fylgjast með því hvers vel þau fylgist með.

 

Börn sækja í hrylling

„Fyrst börn sækja í hryllinginn er um að gera að nýta þann áhuga, bjóða þeim upp á hrollvekjur sem hæfa þeirra aldri og efla bæði læsi og ritun. Foreldrar krakka, sem hafa sótt ritsmiðjurnar, hafa flestir sagt mér að börnin þeirra hafi aldrei sýnt nokkurri vinnu jafn mikinn áhuga og metnað. Ég held að þar spili mest inn í aðdráttarafl hrollvekjunnar og svo að krökkunum sé sýnd virðing og að einhver hafi trú á verkum þeirra,“ segir Markús.

 

Börn skrifa hrollvekju

Markúsi fannst mikilvægt að koma hryllingssögum barnanna sem hann kenndi vorið 2015 út í bók og safnaði fyrir útgáfunni á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund. Í vor kom svo út bókin Eitthvað illt á leiðinni er.

Mikið var lagt í bókina og var hún myndskreytt af færustu myndskreytum landsins, þar á meðal Sigrúnu Eldjárn, og prentunin vandaðri en gengur og gerist. Gerður Kristný, sem hefur skrifað hrollvekjur fyrir börn, nú síðast Dúkku, skrifaði formála að Eitthvað illt á leiðinni er.

 

Hrollvekjubylgja fyrir börn

Markús segir hrollvekjubylgjuna og Eitthvað illt á leiðinni er jákvæða fyrirboða enda geti börnin sem eigi sögur í bókinni verið jafnöldrum sínum fyrirmynd og hryllingurinn veitt þeim innblástur.

Einn gangrýnandi bókarinnar benti á að höfundarnir væru undir augljósum áhrifum frá hryllingsmyndum.„ Auðvitað hafa 8 og 9 ára krakkar (vonandi) ekki horft mikið á hryllingsmyndir svo ég fór að velta fyrir mér hvernig það mætti vera. Að einhverju leyti síast þetta inn í menninguna en svo komst ég að því að krakkar horfa mikið á kvikmyndastiklur á Youtube. Þannig hafa þau náð söguþræði heilu hryllingsmyndanna auk þess sem þau hafa lært á áhrifamestu atriðin (því þau eru jú alltaf sýnd í stiklunum).“

 

Lesum hryllingssögu

Bókin Eitthvað illt á leiðinni er hefur fengið frábæra dóma, ekki bara hjá fullorðnum heldur börnum líka. Það er fátt betra nú þegar veðurhamurinn ber hús að utan fyrir jólin og myrkur grúfir yfir öllu að láta sögurnar í bókinni hræða sig svolítið. Hún fellur líka sem flís við rass í barnahrollvekjubylgjuna sem er að ganga yfir.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd