Viðtal: Gerður Kristný og fjölskylda spilar borðspil

Gerður - 2

Það er nóg að gera hjá Gerði Kristnýju fyrir jólin. MYND / Elsa Magnúsdóttir

„Jólin eru notalegur og skemmtilegur tími. Þegar ég er með bók í jólabókaflóðinu, sem er jú yfirleitt, fæ ég að hitta lesendur mína víða um land og ekki síst aðra höfunda, segir rithöfundurinn Gerður Kristný Guðjónsdóttir. Hún var nýverið á Höfn í Hornafirði þar sem hún las upp úr hryllingsbók sinni Dúkku, sem kom út fyrir skömmu. Með í för voru aðrir rithöfundar sem eru með bækur í jólabókaflóðinu.

Nóg er að gera hjá Gerði í tengslum við útgáfu bókarinnar og jólanna. „Í vikunni bíða mín nemendur grunnskólanna á Þorlákshöfn og í Sandgerði auk krakka í Kópavogi. Síðan fer ég með fjölskyldunni á jólatónleika hjá Sinfóníuhljómsveitinni í Hörpu, snæði dýrindismat á Jómfrúnni með góðum vinum og undirbý afmæli frumburðarins sem fæddist á milli jóla og nýárs. Ég veit fátt skemmtilegra en að fagna afmæli sona minna,“ segir Gerður Kristný.

Mikið að gera um jólin

dukka

Gerður Kristný og maður hennar, Kristján B. Jónasson, eigandi og útgáfustjóri bókaútgáfunnar Crymogea, eru foreldrar tveggja drengja á grunnskólaaldri.

Nóg er að gera hjá þeim báðum um jólin.

Gerður Kristný svífur vængjum þöndum á hryllingsbókabylgjunni sem er mikil um þessar mundir á meðal yngri lesenda en hún er höfundur bókarinnar Dúkka sem var að koma út. Þetta er hryllingsbók um leikfang sem lítur sakleysislega út.

Crymogea, sem Kristján stýrir, gefur út fjölda sérstaklega fallegra bóka sem gott er að halda á og snerta, horfa á og lesa. Á meðal bóka Crymogeu eru Stína stórasæng, ljósmyndabækur Ragnars Axelssonar, Ólafs Elíassonar, bók um Rut Káradóttur og Vín – umhverfis jörðina á 110 flöskum.

Óskar sér borðspil í jólagjöf

Komdu að spila með spilavinum

Það er algjört himnaríki fyrir þá sem finnst gaman að leika í borðspilum að heimsækja Spilavini. MYND / Spilavinir

Það má því ætla að jólin séu sérstaklega stressandi fyrir fólk í bókageiranum og hamli því að fjölskyldan geti gert allt það saman sem hún vill gera.

En hvað gerir fjölskyldan saman um jólin?

„Það þarf auðvitað að læra fyrir skólann og við foreldrarnir aðstoðum við það. Síðan reynum við að kíkja í bæinn, fara á söfn, kaffihús eða hitta vini og vandamenn. Það er alltaf eitthvað um að vera,“ segir Gerður Kristný.

„Okkur finnst gaman að spila borðspil og ferðast. Stundum er líka farið í bíó eða leikhús. Þessa dagana spilum við aðallega King of Tokyo og Sofandi drottningar. Okkur finnst skemmtilegt að bregða okkur í Spilavini í Skeifunni og læra ný spil. Þar ræður gleðin og þjónustulundin ríkjum. Nú bindum við miklar vonir við að borðspil leynist í einhverjum jólapakkanna.“

Fara oft norður á land

Fjölskyldan ferðast líka nokkuð, bæði að vetri sem sumri.

„Við ferðumst aðallega norður í land. Á sumrin dveljum við gjarnan að Hrauni í Öxnadal og um páskana höfum við verið á Akureyri. Þar er dásamlegt að vera. Í Skagafirði búa síðan tengdaforeldrar mínir og þá er alltaf gott heim að sækja. Þá förum við í sund á Hofsósi og drengirnir bregða sér á hestbak.“

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd