
Þremenningarnir hressu sem koma að bókinni Eldum sjálf, þau Birgir Ísleifur Gunnarsson ljósmyndari, útgefandinn og höfundurinn Dögg og Þorbjörg Helga Ólafsdóttir. / MYND HAG
„Mig langaði til að við gætum eldað saman uppskriftir sem 5 ára dóttir mín réði við og væru ekki of flóknar. Ég sjálf nenni ekki að elda rétti sem eru með of mörgum hráefnum og því valdi ég uppskriftir sem eru með fáum hráefnum og aðlagaði aðrar,“ segir bókaútgefandinn Dögg Hjaltalín, höfundur matreiðslubókarinnar Eldum sjálf.
Bókaútgáfan var að gefa bókina út. Dögg samdi bókina með hjálp Þorbjargar Helgu Ólafsdóttur, Ísleifs Birgis Gunnarssonar ljósmyndara og 18 litlum kokkum á barnsaldri. Þetta er matreiðslubók fyrir börn með uppskriftum sem þau geta spreytt sig á sjálf. Í bókinni Eldum sjálf eru um 20 einfaldar uppskriftir fyrir börn á aldrinum 4-10 ára.
Steikti fisk 8 ára
Þau eru fjögur á heimili Daggar, maður hennar og börn þeirra tvö, 5 og 16 dætur. Dögg segir að uppskriftir í bókinni innihaldi brot af því besta sem hún hafi eldað í barnæsku og fjölskylda hennar geri í dag.
„Ég lærði sjálf að steikja fisk þegar ég var átta ára og hef alltaf gert þessa uppskrift. Plokkfiskurinn og grjónagrauturinn eru líka mjög oft á boðstólum á mínu heimili,“ segir hún.
Hluti af uppeldinu að elda
Dæturnar hafa erft það frá móður sinni að byrja snemma að baksa í eldhúsinu.
„Sú yngri hjálpar oft við bakstur og við einfalda matargerð. Eldri dóttirinn var um 10 ára þegar hún byrjaði að elda kvöldmatinn og á tímabili var hún ábyrg fyrir því að elda kvöldmat tvisvar í viku sem hluti af verkefnum hennar á heimilinu. Sú eldri er mjög dugleg að baka og elda sér eitthvað gott,“ segir bókaútgefandinn Dögg Hjaltalín að lokum.
Eldað frá grunni
Eldum sjálf var gerð með mikilli hjálp frá 18 litlum kokkum sem spreyttu sig á öllum uppskriftunum fyrir framan ljósmyndara og tókst vel til. Maturinn var eldaður frá grunni og var hvert skref í undirbúningnum fest á filmu. Með því að elda með Eldum sjálf læra börn að fara eftir uppskriftum og fylgja þeim skref fyrir skref.