
Bók um veður varð til upp úr spjalli Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur við eldri son sinn. Hún hefur sjálf verið bókaormur frá barnæsku. Hún mælir með því að lesið sé fyrir börn.
„Ég er bókafrænkan sem vill helst gefa börnum bækur að gjöf,“ segir Bergrún Íris Sævarsdóttir, rithöfundur og myndlistarmaður. Bergrún kemur víða við í list sinni. Hún handmálar barnaherbergi, málar verk fyrir einstaklinga og fyrirtæki og myndskreytir barnabækur auk þess að skrifa þær líka.
Bergrún segist hafa lesið mikið í barnæsku, Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren og Stikkilsberja-Finnur eftir Mark Twain sitja í henni.
Fór inn í skáp með vasaljós
„Ég var farin að lesa upp úr fjögurra ára, las allt sem ég kom höndum yfir og var fastagestur á Bókasafni Kópavogs, skólabókasafninu og bókasafni Norræna hússins. Ég elskaði C.S. Lewis og gáði ítrekað inn í skápinn minn hvort þar leyndust ekki dyr að töfraheimi. Reyndar sat ég oft í skápnum, en hann var vel djúpur og ég hafði útbúið mér leskrók með púðum, vasaljósi og kexi. Ég vissi alltaf að ég vildi verða teiknari en rithöfundadraumurinn var til staðar en ég var mun hræddari við að reyna fyrir mér með orð heldur en myndir,“ segir Bergrún.
Bergrún á tvo syni, einn sex ára gutta og annan tíu mánaða. Hún segir þann eldri hafa fengið áhuga á bókum með móðurmjólkinni.
„Við lesum saman daglega og höfum gert síðan sá eldri var aðeins 3ja mánaða. Núna les hann fyrir litla bróður sinn,“ segir Bergrún.
En hvað eruð þið að lesa?
„Við lesum allskyns bækur, myndabækur og lengri bækur en þessa stundina erum við til dæmis að lesa saman bókina Sólbjört Valentína um frumskógarfugla og konunglegar nærbuxur. Amma óþekka er líka í miklu uppáhaldi. Sá yngri er fallinn fyrir uppáhalds bókinni minni, Bói og Bína á töfrateppinu, en hana fékk ég í afmælisgjöf sem barn. Bókin er svo marglesin að hana hefur þurft að líma saman aftur og aftur. Þannig vil ég hafa bækur, mikið lesnar. Auðvitað á að fara vel með bækur en börn verða að fá að koma við bækurnar. Ef þær rifna þá nær maður bara í bókaplast eða límband,“ segir Bergrún.
Veðurbók fyrir börn
Þegar eldri sonur Bergrúnar og manns hennar fæddist fyrir sex árum þá má segja að barnabókahöfundur hafi líka komið í heiminn. Hún hóf að rita og myndskreyta barnabækur og námsbækur og hefur myndskreytt tvær bækur með Kristjönu Friðbjörnsdottur. Fleiri eru á leiðinni frá þeim.
„Það er dálítil klisja, en barnabókahöfundurinn vaknaði þegar ég eignaðist sjálf börn. Eldri sonur minn er mikill bóka- og sögukall og forvitinn um allt milli himins og jarðar. Oft verða til hálfgerðar sögur þegar ég er að tala við hann eða útskýra hitt og þetta,“ segir Bergrún. Upp úr spjalli sínu við soninn um veðrið og vindinn varð til veðurbókin Vinur minn, vindurinn, sem kom út árið 2014. Þetta var fyrsta bok Bergrúnar einnar.
Bókin fékk afar góðar viðtökur. Hún var tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs auk þess að hljóta tilnefningu til Fjöruverðlaunanna.
Í framhaldinu skrifaði Bergrún bókina Sjáðu, mig sumar. Nú hefur Bergrún skrifað sína þriðju bók, barnabókina Viltu vera vinur minn? sem er nýkomin út. Bókin fjallar fjallar um litla einmana kanínu sem ákveður að byggja brú í von um að finna vini hinumegin við lækinn.
Spyrjandi augu og vinalegar bækur
„Mér finnst voðalega gaman að gefa út vinalegar bækur,“ segir Bergrún. „Titill bókarinnar Vinur minn, vindurinn hefði getað verið eitthvað allt annað en mér fannst þetta hljóma fallega og svo er ég alltaf voða veik fyrir stuðlun. Sú nýjasta átti sér ótal titla áður en ég lenti á þessum. Fyrst skrifaði ég hana á ensku, í sumarnámi í barnabókagerð í Cambridge. Þá hét hún Building Bridges sem mér fannst svo skemmtilega tvöföld merking. Kanínan byggir brú, bókstaflega, en hún byggir líka óáþreifanlega brú milli sín og hinna dýranna. Þegar kápumyndin var hinsvegar komin og kanínan horfði döprum augum á mig, ein á vegasaltinu, fann ég svo til með henni og langaði svo að hún myndi eignast vin. Hún spyr því alla sem sjá bókina út í bókabúð: „Viltu vera vinur minn?“ og bræðir vonandi nokkur hjörtu. Ég get að minnsta kosti ekki staðist þessi spyrjandi augu og hikandi bros“ segir Bergrún að lokum.
Lesum saman
Bergrún segir bókina Viltu vera vinur minn? bók sem fullorðnir og börn eigi að lesa saman. Við lesturinn eigi sá fullorðni að vekja barnið til umhugsunar, ræða um bókina um efni hennar, einmanaleika og vináttu.