„Á Vetrarhátíð er enn dimmt og drungalegt úti. Það gefur manni frelsi til að gera skemmtilega viðburði sem tengjast myrkri og ljósi. Myrkrið er svo örvandi fyrir hugmyndaflugið. Eins og sjá má á fjölbreyttri dagskrá hátíðarinnar í ár,“ segi“ Hólmfríður Ólafsdóttir um Vetrarhátíðina sem sett var 1. febrúar og stendur alla helgina.
Hólmfríður hefur verið verkefnastjóri hjá Borgarbókasafninu í 16 ár og aðallega skipulagt viðburði. Eins og gefur að skilja er viðburðastjórinn oft á þönum og sér minnst af því sem hann skipuleggur sjálfur.
„Ég hef komist á 1-2 viðburði,“ segir Hólmfríður.
En hvað er skemmtilegast?
Hólmfríður segir skemmtilegast við Vetrarhátíðina að sjá útiviðburði þar sem ljós og skuggar eru í aðalhlutverki. „Ég verð nú að játa að það sem er skemmtilegast er að láta hugmyndir sínar rætast og fá leyfi til að gera eitthvað magnað eins og Háskaleikana og Heimsdaginn. Og núna erum við í samstarfi við Ljósmyndasafnið og Borgarskjalasafnið og því er allt Grófarhúsið með á Háskaleikunum og svo hefur verið mjög gaman að vinna með öllu því frábæra fólki sem starfar í húsinu og gert þetta allt að veruleika.“
Heimsdagur barna á Vetrarhátíð
En sem verkefnastjóri, nær hún að gera eitthvað með börnunum?
„Jú, sem betur fer hef ég oftast verið að skipuleggja dagskrá fyrir fjölskylduna og þá mæta mínar dætur alltaf með mér. Nú eru þær orðarn svo vanar að vera hluti af stórum hátíðum að þær eru farnar að hjálpa til við hugmyndavinnu og skipulag,“
Á Hólmfríður sér draumaviðburð sem aldrei hefur orðið að veruleika á Vetrarhátíð?
„Á hverju ári fæ ég risastórar hugmyndir sem eru svo aðlagaðar að getu og fjármagni og oftast náum við að gera það sem okkar langar til með útsjónarsemi og elju starfsmanna. Ég man ekki eftir neinni sérstakri hugmynd sem við höfum ekki getað gert að einhverju leiti en nú verð ég bara að leggja höfuð í bleyti fyrir næsta ár,“ segir hún.
Ókeypis á söfn og í sund

Sundlaugin í Laugardal er falleg bygging, sérstaklega í köldu veðri en þá býr heit gufan til dularfullt andrúmsloft.
Vetrarhátíðin var sett 1. febrúar og stendur hún fram á sunnudag. Þetta er 17. skiptið sem Vetrarhátíðin fer fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.
Hátíðin samanstendur af fjórum stoðum: Safnanótt, Sundlauganótt, Snjófögnuði í Bláfjöllum og ljósalist ásamt yfir 150 viðburðum þar sem fjöldi listamanna tekur þátt í að skapa einstaka stemningu í borginni.
Allir þessir viðburðir eru ókeypis auk þess sem frítt er fyrir börn yngri en 16 ára á Snjófögnuðinn í Bláfjöllum.
Á þriðja tug bygginga á höfuðborgarsvæðinu verða upplýstar í einkennislitum Vetrarhátíðar, grænum og fjólubláum, auk þess sem ljóslistaverk verða á nokkrum lykilbyggingum á höfuðborgarsvæðinu; Hallgrímskirkju, Hörpu, Ráðhúsi Reykjavíkur og Kópavogskirkju. Svo opnar forseti Íslands líka dyrnar að Bessastöðum og geta þeir sem viljað skoðað bæði Bessastaðastofu og kirkjuna á Bessastöðum.
Safnanótt
Safnanótt er haldin föstudagskvöldið 2. febrúar 2018 en þá opna fimmtíu söfn dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá frá klukkan 18:00 til kl 23.00. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið Safnanætur fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu.
Frítt er í sérstakan Safnanæturstrætó á milli allra safnanna.
Sundlauganótt
Sundlauganótt verður haldin laugardagskvöldið 3. febrúar 2018 en þá verður frítt í sund frá klukkan 18:00 til 22.00 í níu sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu.
Eins og áður sagði er boðið upp á svo marga viðburði á Vetrarhátíð að alltof langt mál er að telja þá upp í viðburðadagatali ullendullen.is. Þess í stað vísum við á vef Vetrarhátíðar.
Ítarlegri upplýsingar: Dagskrá vetrarhátíðar