Vetrarfrí 2021: Ævintýri fyrir alla á Þjóðminjasafni

Hvað á nú að gera í vetrarfríinu? Engar áhyggjur. Allskonar er í boði og allskonar hugmyndir fara að birtast á ullendullen.is um helgina.
Margt er í boði á Þjóðminjasafninu og er þar tekið vel á móti öllum fjölskyldum í vetrarfríi.
Nokkrar sýningar eru í gangi á Þjóðminjasafninu sem gaman er að skoða.

Grunnsýning um allskonar tengt sögu Íslands er alltaf í gangi í Þjóðminjasafninu. Hægt er að ganga um sýninguna og spila hljóðleiðsögn fyrir börn og fullorðna í síma. Svo er hægt að horfa á myndskeið á margmiðlunarskjám, uppgötva litríka, viðkvæma gripi í skúffum og hlusta á leikþætti um fullorðinn og barn frá mismunandi tímaskeiðum í Íslandssögunni. Leggir og kjálkar, bóndabær með búpeningi og búaliði, myndir til að lita og útskurðarletur til að herma eftir er til taks í fjölskyldurýminu Stofu þar sem einnig eru búningar til að máta og fleira áhugavert til að spjalla um eða leika sér með.

Sýningin Regnbogaþráðurinn fjallar um hinsegin sögu á Íslandi.
Boðið verður upp á efnivið í tvær smiðjur sem fjölskyldur geta sest við á eigin vegum á meðan á vetrarfríunum stendur.

Annars vegar drifsmíði og hins vegar Leikur að ljósi, smiðja með endurunnu efni í anda steinglersglugga.

Í safninu eru þrjár sérsýningar; Teiknað fyrir þjóðina – yfirlitssýning á verkum Halldórs Péturssonar; Tónlist, dans og tíska – með ljósmyndum Vigfúsar Sigurgeirssonar frá árum seinni heimstyrjaldarinnar og Hofstaðir – Saga úr jörðu sem fjallar um fornleifarannsóknir á Hofstöðum í Mývatnssveit.

Einnig er uppi örsýning sem byggir á efni þáttanna Víkingaþrautin úr Stundinni okkar á RÚV. Þar gefst gestum kost á að skoða gripina sem koma fyrir í þáttunum, spreyta sig við að ráða rúnir og máta búninga í anda víkingatímans. Í tilefni af Víkingaþrautinni er hægt að fara í ratleik um grunnsýninguna sem felst í því að finna sýningargripi með rúnaristum á.

Nóg pláss er fyrir alla á Þjóðminjasafninu þrátt fyrir samkomutakmarkanir um allt að 150 gesti í söfnum (með hliðsjón af fermetrafjölda).

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts og frítt fyrir börn yngri en 18 ára. Árskort kostar 2.000 krónur og gildir á allar sýningar og viðburði á Þjóðminjasafninu og Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd