Vetrarfrí er alla vikuna í grunnskólum í Garðabæ og á fimmtudag og föstudag í Hafnarfirði. Við tókum saman lista yfir það sem í boði var fyrir fjölskyldur í Reykjavík um síðustu helgi og í vetrarfríinu fyrir tvo daga vikunnar. Það mæltist afar vel fyrir.
Nú er komið að Garðabæ og Hafnarfirði.
Allt er gert fyrir foreldra, afa og ömmur og frændur og frænkur sem hugsa um börnin í vetrarfríinu. Íþróttafélög í báðum bæjum bjóða upp á námskeið auk þess sem bóka- og listasöfn eru með alls kyns skemmtilega og skapandi viðburði alla dagana.
En svo er auðvitað alltaf gaman ef veður leyfir að skreppa í göngutúra niður á bryggju, skoða Hellisgerði í Hafnarfirði, fara í bíltúr í Heiðmörk í hellaleit, leika í skóginum og finna góðan leikvöll. Ef það snjóar þá er auðvitað upplagt að ná í snjóþotur, rassaþotur og annað sem hægt er að skella undir rassinn svo maður renni nú vel niður brekkur.
Hafið þið farið í Hellisgerði? Það er ævintýrastaður.
Ef þið finnið bókstaflega ekkert að gera þá er alltaf hægt að búa til brúðuleikhús úr pakkakassa eða íþróttavöll eins og þessi hugmyndaríku feðgin gerðu.

Knattspyrnuvöllur að hætti Klaufabárðanna. Ef vel er að gáð má sjá Köngurlóarmanninn á meðal áhorfenda. Karakter úr Stjörnustríði er annað hvort með vandræði á vellinum eða línuvörður. MYND / JÓN PÉTUR
Hér höfum við tekið saman það helsta sem við fundum. Endilega sendið okkur skeyti ef þið finnið fleira að gera eða eruð með hugmyndir að afþreyingu og samveru.
Vetrarfríi
Miðvikudagur 22. febrúar
Bókasafn Garðabæjar: Bingó og perlur
Hafnarborg í Hafnarfirði: Listasmiðjur
Fimmtudagur 23. febrúar
Bókasafn Garðabæjar: Skemmtilegt barnabíó og popp
Hafnarborg í Hafnarfirði: Listasmiðja fyrir börnin
Bókasafn Hafnarfjarðar: Bíómyndin Grettir og Spilavinir mæta í heimsókn
Föstudagur 24 febrúar
Bókasafn Garðabæjar: Bíó í bókasafninu og ratleikur
Hafnarborg í Hafnarfirði: Námskeið í grímugerð fyrir öskudaginn
Bókasafn Hafnarfjarðar: Paddington í föstudagsbíói og tilboð á DVD