
Aðalvélar varðskipsins Óðins voru gangsettar í gær, miðvikudaginn 11. maí eftir um 15 ára hvíld. Vélarnar hrukku í gang og allt gekk að óskum.
Það er gott í honum Óðni, sem smíðaður var árið 1959 í Danmörku og hinar upprunalegu vélar möluðu eins og kettir. Þær hafa enda hlotið gott atlæti hjá vélstjórum Hollvinasamtaka Óðins, sem hafa sinnt þeim og látið vel að þeim síðustu misserin, við undirbúning þessa merka viðburðar, að því er segir í tilkynningu frá Borgarsögusafni.

Nú má segja að Óðinn sé orðinn gangfær og gefur það honum enn frekara gildi sem safngripur, einn sá merkasti og stærsti sem varðveittur er á íslensku safni. Óðinn er aftur kominn heim á Sjóminjasafnið í Reykjavík, í heimahöfn við í Vesturbugt og er þar hin mesta hafnarprýði.
Merkilegasta skip Íslands
Óðinn er án efa eitt allra merkasta skip okkar Íslendinga og saga hans er samofin sögu þjóðarinnar á síðari hluta 20. aldar. Óðinn tók þátt í landhelgisdeilum á Íslandsmiðum, auk þess sem hann kom mikið við sögu í ýmsum björgunaraðgerðum við Íslandsstrendur. Frá árinu 2008 hefur Óðinn verið varðveittur sem safnskip við Vesturbugt í Reykjavík. Hann er í eigu Hollvinasamtaka Óðins, en starfsemin er hluti af Sjóminjasafninu í Reykjavík.

Óðinn er einn vinsælasti og glæsilegasti hluti safnsins og sannkölluð hafnarprýði.
Um 35 manns komu að þessum viðburði, vélstjórarnir sem til margra ára hafa unnið að þessum undirbúningi, starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, skipherra, stýrimaður, hásetar, bryti o.fl., fulltrúar Faxaflóahafna, yfirhafnsögumaður, stjórnarmenn Hollvinasamtakanna og fulltrúi Borgarsögusafns Reykjavíkur – Sjóminjasafnsins.
Meðfylgjandi myndir af gangsetningu vélanna við Engey á mánudag tók Kolbrún Ýr Sturludóttir, ljósmyndari Borgarsögusafns.
Sjóminjasafnið opnaði aftur eins og önnur söfn 4. maí síðastliðinn eftir nokkurra vikna lokun vegna samkomubannsins. Nú er sumsé hægt að fara á safnið og skoða allskonar úr sjósögu Íslendinga. Þar á meðal er varðskipið Óðinn, sem gestir geta farið inn í og skoðað hvernig umhorfs er í því.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir af því hvernig er innanborðs.