Það er gaman að skoða varðskipið Óðinn. Skipið er bundið við festar í Reykjavíkurhöfn og er það hluti af Sjóminjasafninu. Varðskipið er heilmikill leyndardómur í augum barna og fullorðinna líka. Á því eru fallbyssur og þyrlupall. Skipið sjálft er mikið völundarhús og mega gestir ganga þvers og kruss um skipið, klifra upp og niður þrönga stiga, skoða káetur, flottan matsalinn og hitta kokkinn í eldhúsinu. Svo er gaman að skoða vélarrúmið og taka í stýrið.
Varðskipið Óðinn var smíðað í Álaborg í Danmörku árið 1959 og er því rétt rúmlega 50 ára gamalt. Landhelgisgæslan notaði skipið í mörgum stórum verkefnum, en það var notað í öllum þremur þorskastríðunum sem Íslendingar háðu á 20. öld. Þótt fallbyssur og fleira sé á skipunum reyndist árangursríkasta vopnið í þorskastríðunum togvíraklippurnar sem eru á afturdekki skipsins en þær skáru á net annarra skipa.
Skipið hefur líka dregið næstum 200 skip til lands og áhöfnum strandaðra skipa.
Óðinn sigldi í sína síðustu ferð fyrir Landhelgisgæsluna í júní árið 2006. Það hefur verið hluti af Sjóminjasafninu í Reykjavík síðan árið 2010. Gestir safnsins geta skoðað hvern krók og kima í skipinu.
Að ýmsu þarf að gæta þegar skip eru skoðuð. Óðinn er þar enginn undantekning. Þar eru þröskuldar háir, gólfin ójöfn. Á sumum stöðum er lágt til loft. Stigar eru brattir og mikilvægt að passa sig, sérstaklega nú þegar hálkan truflar för.
Það er góð hugmynd að skoða varðskipið Óðinn!