
Hefð er fyrir því að hæfileikafólk á öllum aldri úr Voga-, Langholts- og Laugarneshverfi troði upp og skemmti sér og öðrum við leik og söng á útimarkaðnum. MYND / ÍL
Hildur Arna Gunnarsdóttir, einn skipuleggjenda útimarkaðar Íbúasamtaka Laugardals, mælir með því að fólk hafi reiðufé í veskinu þegar það mætir á markaðinn í dag. „Við erum hvorki með hraðbanka né posa enda flest venjulegt fólk að selja úr geymslunum,“ bendir hún á.
Markaðurinn hefst klukkan 11 í dag og verður hann við Laugardalshöll.
Mikið húllumhæ verður á markaðnum. Þar getur fólk fundið ýmis djásn, sum gleymd og grafin sem fólk selur úr geymslum sínum, plötur og bækur en líka grænmeti og margt fleira. Þá stíga margar hljómsveitir á svið og hefur verið ráðinn sérstakur tónlistarstjóri til að halda utan um uppákomurnar. Á meðal tónlistarmanna er Svavar Knútur og Harmonikkubandið.
Ódýr föt og leikföng fyrir börn
Hildur segir mikið af barnafólki mæta á markaðinn sem hefur verið haldinn í hverfinu í rúman áratug.
„Það má finna mikið af fötum á börn á markaðnum, kuldagalla og ýmsan vetrarfatnað auk leikfanga og annarra hluta fyrir börn sem kosta lítið,“ segir hún.
Drífið ykkur á völlinn
Markaðurinn hefst klukkan 11 og stendur fram til klukkan 16. Tímasetningin er frábær enda verður blásið til úrslitaleiks í Borgunarbikarleik kvenna á Laugardalsvelli um leið og markaðurinn lokar. Þar etja kappi lið Selfoss og Stjörnunnar. Þið getið búist við hörku leik enda eru þetta sömu leið og léku til úrslita í fyrra. Þar hafði Stjarnan betur.
ATHUGIÐ! Útimarkaðurinn átti upphaflega að vera á bílastæðamarkaðnum framan við Laugardalsvöll. Búið er að færa hann að Laugardalshöll.
[ad name=“POSTS“]