Til hamingju með daginn lesandi góður!
Í dag, 10. ágúst 2016 er ár liðið frá því Úllendúllen fór í loftið. Til hamingju við og þið sem nýtið miðilinn til að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum og njóta samverunnar með þeim.
Undirtektir lesenda hafa verið frábærar og æðislegt að heyra frá fólki að það nýtir Úllendúllen til að finna viðburði og fá hugmyndir að góðum degi.
Svona varð Úllendúllen til
Úllendúllen er hugmynd sem var í mótun í nokkur ár og sátum við Jón Aðalsteinn og Baldvin Elíasson nokkrum sinnum langt fram á kvöld sumarið 2014 við skipulagningu hans. Þegar Hallgrímur Arnarson sagðist vorið 2015 kunna tæknilausnina fór heldur betur að styttast í að Úllendúllen liti dagsins ljós.
Þegar þetta var hafði hugmyndin ekkert heiti. Við sendum völdum hópi fólks lýsingu á vefnum og kom fjöldi nafna upp úr hattinum. Hjálmar Gíslason, stofnandi DataMarket, mælti með Úllendúllen og vísaði í leikinn Úllen Dúllen Doff sem börn og fullorðnir hafa leikið í um 200 ár.
Hvað er Úllendúllen?
Meginhugmyndin að Úllendúllen hefur haldist óbreytt frá upphafi. Þar söfnum við saman upplýsingum um það sem í boði er fyrir fjölskyldur, börn og afa og ömmur, frænkur og frændur og alla þá af mismunandi aldri sem vilja leika saman.
Á forsíðu miðilsins er hugmyndir að skemmtilegri afþreyingu og hugmyndir að hinu þessu að gera, umfjöllun um sýningar, sundlaugar, leikvelli, skemmtilega hjólastíga, jóganámskeið fyrir börn og viðtöl við áhugavert fólk og margt fleira skemmtilegt sem hægt er að gera í frítíma fjölskyldunnar, helst án þess að þátttakan kosti hálfan handlegg.
Í flipa í vinstra horni vefsíðunnar er hægt að skoða efnið sem fjallað hefur verið um eftir landssvæðum.
Viðburðadagatal Úllendúllen
Í flipanum er líka hægt að skoða viðburðadagatal. Mikil vinna liggur á bak við viðburðadagatal Úllendúllen og getur verið ansi erfitt að halda því við svo það virki almennilega.
Lesendur mega þess vegna alveg senda okkur póst á netfangið ullendullen@ullendullen.is eða skeyti á Facebook og láta okkur vita af skemmtilegum viðburðum. Ekki hræðast það að senda okkur eitt og annað. Við förum yfir allt sem okkur berst og svörum öllum.
Vikulegt fréttabréf
Þegar netverjar opna vefsíðuna í fyrsta sinn sprettur upp lítill gluggi þar sem viðkomandi er spurður hvort hann eða hún vilji gerast áskrifandi að fréttabréfi Úllendúllen. Fréttabréfið reynum við að gefa út vikulega. Útgáfan hefur verið tætingsleg í sumar en veturinn er efnilegur.
Áskrifendur að vikulega fréttabréfinu eru alveg hellingur og fá þeir það sent í tölvupósti á hverjum fimmtudegi.
Í fréttabréfinu er sagt frá því sem framundan er um helgina og í næstu viku ásamt því að rifja upp sitthvað áhugavert sem liðið er, svo sem pistla og viðtöl á Úllendúllen.
Það er gott að gerast áskrifandi að fréttabréfi Úllendúllen.
En hver erum þessi við?
Þetta erum við. Fréttablaðið tók viðtal við okkur skömmu eftir að Úllendúllen fór í loftið. Hér sjáið þið mynd af viðtalinu við okkur Jón Aðalstein og tæknitröllið Hallgrím.
Ýmislegt hefur breyst frá því viðtalið var tekið. Við Hallgrímur vinnum báðir mikið í vinnunum okkar á daginn og höfum því ekki haft eins mikinn tíma utan vinnunnar fyrir þetta frístundastarf okkar og við töldum okkur hafa þarna í ágústlok árið 2015. Þess vegna hefur fréttunum á forsíðunni fækkað og viðburðirnir ekki eins margir og við myndum vilja. En það mun allt breytast.
Það er draumur okkur að færa þetta allt til betri vegar og gera drauminn okkar um Úllendúllen að veruleika.
Þess vegna fögnum við öllum þeim sem vilja deila með okkur hugmyndum eða segja frá skemmtilegum viðburðum.
Viljið þið vita meira?
Endilega hafið samband við okkur á Facebook eða með því að senda skeyti á netfangið ullendullen@ullendullen.is. Sendið okkur línu.
Þið getið líka sent okkur póst í formið hér að neðan.
Við svörum öllum!
Góða skemmtun með Úllendúllen. Vonandi hjálpar hann að gera líf fjölskyldunnar skemmtilegra.