Menningarnótt getur verið mikil töfranótt – og þessa Menningarnótt 2016 verður Töfranóttin flutt í Hörpunni á milli klukkan 17 og 18.
Það eru fjórtán krakkar í Óperuakademíunni sem flytja verkið.
Þegar við heyrðum í Hörpu Jónsdóttur óperustjóra voru nokkur þeirra í kaffi hjá henni. Þau voru meira en til í að segja okkur meira frá þessari Töfranótt.
Undirheimaverur sleppa út
„Töfranótt fjalla um stelpu sem stelst til að opna töfrabók og sleppir þar með undirheimaverum úr læðingi,“ segja þau okkur, en þegar töfrarnir sleppa út fara alls kyns andar á stjá og skemmta sér og öðrum.
Óperuakademían starfar á sumrin og nemendurnir í henni eru á aldrinum 16 til 20 ára.
En hvernig lærir maður eiginlega að syngja óperutónlist?
„Það er gott að byrja í kór sem allra fyrst,“ segja þau og bæta við: „Á unglingsaldri er hægt að fara í formlegt söngnám. Svo er gott að kunna á hljóðfæri líka.“
Töfranóttin hefur aldrei verið flutt áður opinberlega, enda er hún afrakstur vinnu hópsins núna í sumar.
Það er því um að gera að skreppa í Hörpu og sjá hvaða tónar koma út úr bókinni.
Hvað ætlið þið að gera á Menningarnótt 2016?
Við tókum saman áhugaverða viðburði á Menningarnótt sem hentar fyrir alla fjölskylduna. Smellið og skoðið Menningarnótt.