Ísdagurinn mikli: Þráinn ísmaður hlakkar alltaf jafn mikið til

Gestir á Ísdeginum mikla. MYND / Kjörís

„Ég hlakka alltaf jafn mikið til Ísdagsins mikla enda er það uppskeruhátíð okkar starfsmanna,“ segir ísmaðurinn Þráinn Ómar Jónsson, sem stýrir vöruþróun hjá Kjörís í Hveragerði. Hann og samstarfsfólk hans hefur unnið hörðum höndum að því að búa til furðulega og framandi ísa handa gestum og gangandi sem boðið verður upp á á Ísdeginum mikla laugardaginn 15 ágúst. Verkið er mikið enda búist við á milli 10-15 þúsund gestum.

Þetta er níunda árið sem Ísdagurinn mikli er haldinn í tengslum við bæjarhátíðina Blómstrandi dagar í Hveragerði.

 

Furðulegur og framandi ís

Gestir á Ísdeginum hafa fengið að smakka á eins mikið af skrýtnum ís og þeir geta torgað. Þar á meðal er bernais-ís, ís með lýsi, beikon-ís, hákarla-ís, ís með grjónagraut, túnfiskís, ís með grænum Orabaunum og Búbís, sem gerður var úr brjóstamjólk kvenna í Hveragerði.

Þráinn segir samstarfsfólk sitt afar hugmyndaríkt, á hverju ári er tillögum að furðuís sem gefa á gestum á Ísdeginum mikla safnað í kassa.

„Ég skoða svo allt með opnum huga. Sumt gengur hreinlega ekki upp en við höfum sýnt það í gegnum tíðina að það er hægt að prófa nánast allt,“ segir hann. Þeir sem mæta á Ísdaginn mikla geta gætt sér á ís úr grískri jógúrt, Grasa-Guddu-ís úr íslenskum jurtum, kókosbolluís, mysingaís og gráðostaís. Orkuboltarnir og íþróttafólk getur gætt sér á ís úr amino energy orkudrykk.

 

Mjólk frá Miðausturlöndum

Óvenjulegasti ísinn er úr kameldýramjólk. Þótt Íslendingar verði seint leiðir á að dásama kúamjólk þá þykir kameldýramjólkin ekki síðri í Miðausturlöndum. Mjólkin er sérstaklega flutt hingað til lands í tilefni dagsins.

„Ég veit ekki til að ís úr kamelmjólk hafi verið gerður hér á landi fyrr,“ segir Þráinn ísmaður.

Lestu meira hér um Blómstrandi daga og Ísdaginn mikla.

Þráinn ísmaður í Kjöríspinnagrænni treyju með Valdimari Hafsteinssyni, framkvæmdastjóri Kjörís. / MYND Þráinn

 

[ad name=“POSTS“]

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd