Þín eigin bókasafnsráðgáta í Gerðubergi

Borgarbókasafnið Gerðubergi hefur fengið nýja ásýnd og hefur nú verið umbreytt í heim byggðan úr mörg þúsund bókum. Í þessum dularfulla bókaheimi býr Gerðubergur gamli, aðalpersónan í ráðgátunum þremur; Ævintýraráðgátunni, Vísindaráðgátunni og Hrollvekjuráðgátunni.

Sýningin Þín eigin bókasafnsráðgáta verður opnuð laugardaginn 2. Október og stendur hún út apríl árið 2022.

Við opnun sýningarinnar mun sýningarteymið taka á móti gestum. Teymið skipa sýningarstjórarnir Embla Vigfúsdóttir og Svanhildur Halla Haraldsdóttir, Auður Ösp Guðmundsdóttir, leikmyndahönnuður og Ævar Örn Benediktsson, rithöfundur, sem tók þátt í samsköpun á ráðgátunum þremur sem ratleikurinn hverfist um. Ævar Þór býður svo yngri kynslóðinni að leysa með sér eina ráðgátu og Embla og Svanhildur veita leiðsögn um sýninguna og segja frá tilurð hennar.

Á sýningartímanum er ráðgátusnillingum á öllum aldri boðið að taka þátt í ratleik þar sem þeir ráða sjálfir hvað gerist!

Ótrúlegar sögur, ævintýralegt umhverfi, áferð, lýsing og ilmur mæta gestum sem ganga inn í rýmið og óvæntir hlutir fara að gerast. Allir geta tekið þátt, jafnt yngri og þau sem eldri eru, en skemmtilegast er að fá alla fjölskylduna eða vinahópinn með í ratleikinn. Ráðgáturnar henta vel blönduðum hópum, bæði hvað varðar aldur og getu og eru í boði jafnt fyrir fjölskyldur, vinahópa og vinnustaðahópa.

Allt að 6 þátttakendur geta verið í hverjum hópi.

Hægt er að skoða sýninguna sjálfa á opnunartíma safnsins en nauðsynlegt er að skrá sig með góðum fyrirvara til þátttöku í ratleiknum. Skráning í ratleikinn fer fram á vefsíðu Borgarbókasafnsins.

Skólahópum er boðið að koma í leiðsagnir um sýninguna en henni fylgir sérsniðið námsefni frá 123skoli, en að því verkefni standa Kristjana Friðbjörnsdóttir og Ása Marin Hafsteinsdóttir. Verkefnið hlaut veglegan styrk til námsefnisgerðar frá lestrarátakshópi Lions klúbbsins.

Borgarbókasafnið þakkar öllum þeim sem gáfu bækur úr eigin bókahillum, geymslum og skúmaskotum til þess að sýningin gæti orðið að veruleika og til þess að gefa bókum, sem jafnvel enginn les lengur, nýtt hlutverk. Sýningin vekur okkur til umhugsunar um hvernig gefa má gömlum bókum nýtt líf og hversu mikilvæg bókasöfn eru í hringrásarhagkerfinu.

Að baki verkefninu standa:

Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur
Embla Vigfúsdóttir og Svanhildur Halla Haraldsdóttir, sýningarstjórar og sérfræðingar hjá Gerðubergi
Auður Ösp Guðmundsdóttir, leikmyndahönnuður
Eva Dögg Jóhannsdóttir, meistaranemi í arkitektúr
Ninna Björk Ríkharðsdóttir, nemi í grafískri hönnun og bókavörður í Borgarbókasafninu Gerðubergi.
Kristjana Friðbjörnsdóttir og Ása Marin Hafsteinsdóttir, námsefnishöfundar 123 skóli
Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri í Borgarbókasafninu Gerðubergi

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd