Ævar vísindamaður hefur komið víða við, stýrt sjónvarps- og útvarpsþáttum og gefið út fjölda bóka. Í fyrra hóf hann svo að rifja upp bernskubrek sín í bókinni Risaeðlur í Reykjavík, sem var fyrsta bókin í seríunni Bernskubrek Ævars vísindamanns, en núna í haust kom svo út framhaldið, Vélmennaárásin. En til þess að komast að því hvaða vélmenni þetta eru þarf greinilega að lesa bókina. Ævar sjálfur gefur nefnilega ekkert upp.
„Ég get eiginlega ekki sagt þér hvaða vélmenni þetta eru, svona án þess að kjafta endinum á bókinni, en þau eru brjáluð vegna þess að það er einhver einstaklega illa innrættur á bak við tjöldin sem er að stjórna þeim.“
Ævar og Ævar
Það er Ævar Þór Benediktsson sem er skrifaður fyrir bókunum, en hver eru skilin á milli Ævars Þórs og Ævars vísindamanns – hversu skyldir eru þeir?
„Skilin á milli okkar verða sífellt óljósari. Eins og staðan er núna er Ævar vísindamaður með gleraugu og Ævar Þór nota linsur. Annars erum við voða svipaðir og tölum greinilega báðir stundum um okkur í þriðju persónu.“
Ævar Þór er menntaður leikari og hefur ekki bara leikið Ævar vísindamann, heldur líka Lilla klifurmús í Þjóðleikhúsinu og hann Óðinn í Dagvaktinni, auk fleiri hlutverka. Hann hefur samt verið duglegastur við að skrifa bækur og hefur skrifað sjö slíkar á jafnmörgum árum, eitt smásagnasafn og sex barnabækur – fjórar þar sem Ævar vísindamaður hefur verið í aðalhlutverki. Hvernig gerðist þetta?
„Ég hreinlega veit það ekki. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á barnaefni og er mikill lestrarhestur. Svo er líka bara fárálega gaman að búa til og segja sögur. Auk þess er tilfinningin að halda á bók sem maður hefur sjálfur skrifað eiginlega ólýsanleg – þannig að það spilar margt inn í. Bróðir minn, Guðni Líndal barnabókahöfundur og kvkimyndagerðarmaður, er svona líka. Kannski var eitthvað í vatninu heima í sveit þegar við vorum litlir.“
Stórhættulegar geimverur í næstu bók
Ævar hefur líka staðið fyrir lestrarátaki í grunnskólum landsins undanfarin ár og alls voru 54 þúsund bækur lesnar í átakinu síðasta vetur. Þá voru nokkrir krakkar svo heppnir að vera dregnir út og urðu í kjölfarið meðal aðalpersónanna í Vélmennaárásinni. En hver er galdurinn við að fá krakka til að lesa bækur?
„Til að maður nenni að gera eitthvað sem er ekki lífsnauðsynlegt (eins og að borða, fara á klósettið eða sofa) þarf þessi tiltekni verknaður að vera spennandi og skemmtilegur. Það er fátt verra en leiðinleg bók og þess vegna verðum við að minna á hvað bækur geta verið einstakar. Þar koma bókasafnsfræðingarnir sterkir inn, en ég veit að átakið mitt hefði aldrei gengið svona vel ef starfsmenn grunnskólanna, og þá sérstaklega bókasafnanna, væru ekki svona fáránlega duglegir að fylgja því eftir.“
Og það verður framhald á átakinu – og fleiri krakkar geta orðið aðalpersónur í næstu bók. „Lestrarátakið mun svo sannarlega halda áfram, en það byrjar 1. janúar 2017. Ný bók í Bernskubrekum Ævars vísindamanns kemur út vorið 2017 og þar verða fimm persónur á lausu sem krakkar sem taka þátt geta orðið. Þemað í þetta skiptið verður geimverur – stórhættulegar geimverur!“
Teikningar og lesblinduletur
Það er hún Rán Flygenring sem teiknar myndirnar í bækurnar – en hún hefur til dæmis líka teiknað myndirnar í fótboltabækurnar hans Gunnars Helgasonar. En hvernig gekk samstarfið?
„Sambandið okkar Ránar hefur virkað þannig að ég sendi á hana bókina þegar hún er nokkurn veginn tilbúin, og svo hittumst við og ræðum annars vegar hvað hana langar að sjá í bókinni og hins vegar hvað mig langar til að sjá. Og ef við erum bæði með sama augnablikið í huga ratar það í bókina. Það er mjög gaman að vinna með Rán því hún laumar svo mörgum bröndurum og smáatriðum inn í myndirnar sínar.“
Letrið í bókinni er dálítið sérstakt, en það er sérstakt lesblinduletur. Hvernig virkar það eiginlega?
„Lesblinduletrið er leturgerð sem Emilía Ragnarsdóttir hjá Forlaginu datt í hug að nota í bækurnar. Þetta er letur hannað af grafískum hönnuði, sem sjálfur er lesblindur. Letrið var mastersverkefnið hans í grafískri hönnun, en hann vildi búa til letur sem myndi hjálpa sér að komast hraðar í gegnum texta. Svo kom í ljós að þetta letur virkaði fyrir aðra líka. Í dag er það notað út um allan heim og hægt er að hlaða því niður í gegnum vefsíðuna https://www.dyslexiefont.com/ og setja t.d. á vafrann sinn. Letrið er auðvitað ekki 100% lausn, en ég hef verið stoppaður úti á götu af krökkum sem eru lesblindir og Risaeðlurnar voru fyrsta bókin sem þau náðu að klára, alveg sjálf, því letrið hjálpaði þeim. Það er auðvitað frábært og ég vona að fleiri fari að nota þetta flotta letur, bæði í bókabransanum og í námsefni.“
Fyrir þá krakka sem vilja fræðast meira um Ævar vísindamann áður en þeir finna bækurnar á næsta bókasafni eða í næstu bókabúð er hægt að lesa margt merkilegt um hann á heimasíðunni hans hérna.