Gunnsteinn: Baldursbrá hefur verið mikið ævintýri

Jón Svavar Jósefsson (Rebbi með hatt) og Gunnsteinn Ólafsson fara yfir nóturnar af Baldursbrá.

„Viðbrögð fólks hafa komið okkur þægilega á óvart,“ segir Gunnsteinn Ólafsson, annar höfunda ævintýraóperunnar Baldursbrá. „Allir sem hafa séð sýninguna hafa verið stórhrifnir, bæði börn og fullorðnir.“

Ævintýraóperan var flutt í Hörpu í fyrra og hlaut rífandi fína dóma. Vegna fjölda áskorana verður óperans flutt á þremur aukasýningum í Norðurljósasal Hörpu 20.–22. maí. Stefnt er svo að því að gefa hana út á DVD-diski í haust.

Fékk hugmyndina í Transylvaníu

Gunnsteinn segir uppfærsluna á Baldursbrá hafa verið mikið ævintýri.

Hugmyndin að óperunni kviknaði á ferðalagi um Transylvaníu vorið 1987. Gunnsteinn Ólafsson sótti þá um styrk til Lista- og menningarráðs Kópavogs og fékk starfslaun til að semja hana. Böðvar Guðmundsson tók að sér að semja óperutexta sem hann skilaði af sér i í byrjun árs 1988. Fyrsta gerð óperunnar var tilbúin í október 1988 en ekkert varð úr flutningnum.

Hrúturinn er ógnvænlegur. MYND / Geirix

Hrúturinn er ógnvænlegur. MYND / Geirix

Snemma árs 2011 ákvað Gunnsteinn loks að dusta rykið af Baldursbrá. Að tilstuðlan Sveins Einarssonar leikstjóra endurskrifaði Gunnsteinn söguþráðinn og tónlistina að stórum hluta.
Óperan var flutt á tvennum tónleikum sumarið 2014, á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði og í Langholtskirkju og voru þeir tilnefndir til íslensku tónlistarverðlaunanna. Árið 2015 lagði svo Steinunn Birna Ragnarsdóttir, þá tónlistarstjóri Hörpu, til af fyrra bragði að Baldursbrá yrði sett á svið í Hörpu. Það varð úr og var hún sett upp við góðan orðstýr.

En um hvað er óperan?

Í ævintýraóperunni segir frá blómi sem vill láta drauminn rætast um að sjá sólarlagið. Hennar bíða margvíslegar hættur, því á ásnum sem blómið þarf að komast yfir er bæði kalt og lítið vatn og svo eigrar þar um stórhættulegur Hrútur. Spói vinur Baldursbrár fær Rebba til þess að bera blómið upp á ásinn en sá er ekki trúaður á að blómið lifi ferðalagið af. Yrðlingar rebba eru líka á höttunum eftir hrútnum og reyna að bjarga Baldursbrá frá bráðum bana.

Hverjir syngja?

Baldursbrá er viðkvæmt blóm sem vill fara í hættulegt ferðalag. MYND / Geirix

Baldursbrá er viðkvæmt blóm sem vill fara í hættulegt ferðalag. MYND / Geirix

Í aðalhlutverkum eru Fjóla Nikulásdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Jón Svavar Jósefsson og Davíð Ólafsson. Leikstjóri er Sveinn Einarsson. Óperan er að hluta byggð á íslenskum þjóðlögum, dönsum og rímnalögum.

Nú er um að gera og skella sér á ævintýraóperuna Baldursbrá.

Miðasala er í Hörpu: www.harpa.is. Sýningarnar verða klukkan 19:00 föstudagskvöldið 20. maí, klukkan 14:00 laugardaginn 21. maí og sunnudaginn 22. maí.

Miðinn á sýninguna kostar 2.500 krónur.

Yrðlingarnir vilja hjálpa fallega blóminu Baldursbrá. MYND / Geirix

Yrðlingarnir vilja hjálpa fallega blóminu Baldursbrá. MYND / Geirix

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd