Syngjandi Blái hnötturinn í Borgarleikhúsinu

Mynd: Grímur Bjarnason

Mynd: Grímur Bjarnason

Blái hnötturinn var frumsýndur nýlega í Borgarleikhúsinu – en þetta er ekki í fyrsta skipti sem verkið fer á fjalirnar. Það er þó töluvert breytt frá fyrri útgáfum því nú er verkið orðið hreinn söngleikur. „Það var mjög gaman að breyta verkinu í söngleik,“ segir Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri sýningarinnar, og bætir við:

„Ég byrjaði á því að skoða hvað væri gott að syngja um í sögunni og laga leikritið að formi söngleiks með hæfilegu blandi af framvindu og áhugaverðum samtölum eða einræðum, hvort fólk er að syngja saman eða með sólónúmer. Þar að auki stækkaði ég vægi einstaka karaktera í barnahópnum svo það væru ekki bara Gleði-Glaumur, Hulda og Brimir sem væru með allan texta. Ég sleppti sumu úr bókinni, eins og ferðalagi barnanna í dimma skóginum, því leikmyndin og lýsingin sjá um það í öðrum senum og óþarfi að gera sérstaka senu um það. Við strikuðum líka risaköngurlærnar út í frumsýningarvikunni þótt það væri rosalega flott sena, því innihald hennar var of líkt senunni sem kemur strax á eftir og er meira áríðandi í framvindu sögunnar.“

En hvað var það sem heillaði hann upphaflega við þetta ævintýri Andra Snæs?
„Þetta er spennandi ævinýri sem fjallar um málefni sem kemur okkur öllum við og börnin á Bláa hnettinum eru jafn gáfuð og jafn breysk og við í okkar daglega lífi.“

 

Stelpur leika stráka og strákar leika stelpur

Það heillaði marga krakka að leika í Bláa hnettinum og um tvöþúsund börn komu í prufur fyrir verkið. Hvernig fóru þau að því að velja 22 leikara úr þessum risastóra hópi? „Í prufunum léku börnin, sungu og dönsuðu. Svo reyndi ég líka að spjalla við þau þegar við vorum komin lengra áleiðis. Öryggi, áræðni og heiðarleiki vó mest þegar við völdum í hlutverkin,“ segir Bergur og bætir við að ýmislegt hafi breyst þegar búið var að ráða í hlutverk og byrjað að æfa.

Mynd: Grímur Bjarnason

Mynd: Grímur Bjarnason

„Við gerðum breytingar á verkinu á æfingatímanum. Börnin komu með ábendingar um ýmislegt eins og gengur og gerist þegar verið er að setja upp leiksýningar. Ég hlusta alltaf á það fólk sem ég er að vinna með, sama á hvaða aldri það er. Svo breytti ég strákum í stelpur og stelpum í stráka þegar ég var búinn að velja leikhópinn, því mér þótti ákveðinn leikari eða leikkona passa algjörlega við karaktera sem voru af hinu kyninu.“

Kristjana Stefánsdóttir samdi tónlistina með Bergi – hvernig gekk það samstarf fyrir sig?
„Við Kristjana höfum unnið saman í leikhúsinu í 10 ár og samstarf okkar hefur alltaf verið gott. Hún er frábært tónskáld. Ég lét hana yfirleitt hafa texta og hún samdi lag við þá. Stundum kom hún með laglínu sem féll ekki alveg að textanum þannig að ég þurfti að breyta því sem ég hafði komið með. Þannig köstuðum við hugmyndum á milli okkar. Svo þegar við vorum farin að æfa urðu miklar og hraðar breytingar vegna dansatriðanna og danshöfundurinn Chantelle Carey kom með tillögur að uppbyggingu laganna, þá brást Kristjana yfirleitt við samdægurs og setti inn auka takta hér og þar eða við strikuðum heilt erindi eða færðum til viðlag. Þetta er allt mikil samvinna.“

Mynd: Grímur Bjarnason

Mynd: Grímur Bjarnason

Hvernig hefur svo gengið eftir fyrstu sýningar?

„Viðbrögðin hafa verið frábær. Fólk er alveg steinhissa á hæfni og færni barnanna í sýningunni og elska Björn Stefáns í hlutverki Gleði-Glaums. Svo er auðvitað flogið, dansað, sungið og leikmynd, búningar og ljós mikið sjónarspil. Sýningin gengur mjög vel og mun verða betri og betri eftir því sem við sýnum oftar. Það hefur verið brjálað að gera í miðasölunni eftir að við frumsýndum svo það er augljóst að Blái hnötturinn spyrst vel út.“

Fyrir þá sem vilja fræðast betur um Bláa hnöttinn áður en þeir kíkja á sýningu geta skoðað Facebook-síðu sýningarinnar, skoðað kennsluefni upp úr sögunni eða kíkt á síðu Borgarleikhússins – og svo er náttúrulega tilvalið að finna Söguna um bláa hnöttinn í næstu bókabúð eða bókasafni ef hún er ekki til heima.

Myndir: Grímur Bjarnason

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd