Sveinn Rúnar: Hefur trú á berjasprettunni

Leitað að berjum.

Leitað að berjum.

Eruð þið búin að dusta rykið af berjatínunum og hreinsa fötur fyrir berin? Það er gaman að fara í berjaferð með börnum, leita í lyngi og laumast í berjafötuna öðru hverju.

Ekki flýta ykkur um of! Þið verðið að geyma tínurnar aðeins lengur. Jafnvel hafa kuldagallann tilbúinn og regnstakkinn við hendina fyrir berjaferðina. Ekki er búist við því að berin láti sjá sig fyrr en í kringum næstu mánaðamót. Takið líka nesti með í ferðina því leitin getur tekið lengri tíma en áður.

 

Enn snjór í fjöllum

Læknirinn og berjasérfræðingurinn Sveinn Rúnar Hauksson segir fólk verða að leggja meira á sig í berjaleitinni en áður.

„Við þurfum að hafa meira fyrir því, gefa okkur góðan tíma í berin og láta veðrið ekki ráða för,“ sagði Sveinn.

Berjasprettan hefur látið bíða eftir sér. Sveinn sagði í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag ástæðuna fyrir sprettubresti þá að vetrinum hafi seint ætlað að linna og vorið verið voðalegt. Í ofanálag hafi verið kalt og júlí á þessu ári sá kaldasti síðan mælingar hófust. Enn snjói víða í fjöllum og í bæjarfjöllum.

 

Nóg af grænjöxlum

Sveinn er bjartsýnn á berjasprettuna fyrir norðan og austan og hefur heyrt frá vinafólki á Stöðvarfirði að nóg er af grænjöxlum á bláberja- og aðalbláberjalyngi. Horfur eru því ekki slæmar ef einhver sól er í kortunum. Næturfrost geti líka haft áhrif.

Frostið er þó ekki alslæmt, að mati Sveins. Óhætt er að tína ber þótt þau hafi frosið í eina til tvær nætur, þau verði bara sætari á bragðið. Ólíkt því sem margir halda þá þola bláber frostið betur en krækiber, að sögn Sveins.

 

[ad name=“POSTS“]

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd