Svarti Pétur er skemmtilegur spilaleikur

2015-05-23 11.13.39

Svart Pétur er skemmtilegur spilaleikur fyrir alla fjölskylduna. Hann reynir líka svolítið á útsjónarsemi og kunnáttu. Spilið hentar líka vel þeim sem yngri eru enda þurfa þau að átta sig á því hvað samstæður eru.

Í spilinu mynda tvær áttur eina samstæðu. Þetta þjálfar börn í að sjá samstæður, telja laufin og hjörtun og æfa sig í því að þekkja spilin.

Hvað er Svarti Pétur?

Svarti Pétur er einfaldur leikur. Í leiknum eru öll spilin í spilastokki notuð nema laufagosinn. Hann er tekinn úr stokknum. Spaðagosinn er kallaður Svarti Pétur.

Öll spilin í bunkanum er gefin, eitt í einu. Spilarar geta verið allt frá tveimur og upp í tíu.

Þegar allir eru komnir með spil raða spilararnir spilunum í tveggja spila samstæður, tveimur drottningum, tveimur tíu og svo framvegis. Ekki má mynda samstæðu með spaðagosanum. Samstæðurnar eru síðan lagðar á grúfu í hrúgu á borðið en stöku spilunum haldið eftir.

Svona er Svarti pétur

Markmiðið með spilinu er að enda ekki með spaðagosann, Svarta Pétur. Ólíkt öðrum leikjum sigrar ekki einn heldur allir – nema sá sem endar með spaðagosann, Svarta Pétur.

Byrjið að spila

Spilið hefst svona: Spilarinn á vinstri hönd við þann sem gaf byrjar að spila. Hann dregur eitt spil af gjafaranum, sem á að passa að sá sem dregur sjái ekki spilin sín. Ef spilið sem dregið er myndar samstæðu við spil sem sá sem dregur er með á hendi þá má hann kasta samstæðunni í spilahrúguna.

Að þessu loknu dregur næsti maður til vinstri og gerir hann það sama og sá á undan. Síðan er dregið koll af kolli.

Þegar spilari hefur losað sig við öll spilin þá hefur hann lokið þáttöku í Svarta Pétri. Hinir halda áfram þar til einn situr eftir með spaðagosann, sem heitir Svarti Pétur. Hann tapar.

Nú er bara að hóa fjölskyldunni saman á góðu kvöldi, slökkva á sjónvarpinu og spila á gömlu góðu spilin.

Finnst ykkur gaman að spila með hefðbundin spil? Það má finna góðar hugmyndir eða rifja upp spilin í ritgerðinni Spilastokkurinn og á vefsíðunni Spilareglur.is.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd