Selfoss: Stuð á Stórahóli

Aldur skiptir engu máli þegar snjóar á Selfossi. Þegar snjórinn er góður fara hressir bæjarbúar með snjóþotur, sleða og snjóbretti á Stórahól að renna sér.

Aldur skiptir engu máli þegar snjóar á Selfossi. Þegar snjórinn er góður fara hressir bæjarbúar með snjóþotur, sleða og snjóbretti á Stórahól að renna sér.

Það er óendanlega gaman að renna sér niður hóla og hæðir á snjóþotu, sleða eða bretti. Okkur á Úllendúllen finnst gaman að leita að bestu brekkunum.

Við höfum áður bent á brekkur í Reykjavík. En nú er komið að Selfossi.

Stórihóll

Ekki er mikið um hóla og hæðir í flatneskjunni á Selfossi. Stærsti hóllinn heitir réttu nafni Stórihóll. Þetta er moldarbingur, afrakstur úr framkvæmdum á Selfossi. Þegar grafið var fyrir Fjölbrautaskóla Suðurlands var mold, grjót og sandi mokað í hólinn og var hann sem betur fer aldrei flattur út.

Þótt Stórihóll sé ekki alvöru fjall þá er hann hæfilega stór og öruggur. Það sem mestu skiptir er að  feikilega gaman er að renna sér niður Stórahól á Selfossi á hvernig sleðum og þotum sem er, meira að segja á dekkjaslöngum – og á hvaða aldri sem er.

Afar og feður hafa sést renna sér niður hólinn með börnum og barnabörnum og allir skemmtu sér jafn vel. Aldur skiptir semsagt engu máli á Stórahóli.

Snjór á Selfossi

Stórihóll á Selfossi er á bak við Fjölbrautaskólann við Langholt í Rima-, Tjarna- og Grundarhverfi.

Bílastæði eru við hólinn. Eins er gott að leggja bílum við leikskólann Hulduheima og fara varlega yfir götuna að Stórahól.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd