Tíu ár eru um þessar mundir síðan sögubíllinn Æringi tók til starfa hjá Borgarbókasafni. Hann var frumsýndur við leikskólann Tjarnarborg við mikinn fögnuð leikskólabarna seint í febrúar árið 2008. Fyrstu mánuðina ók leikkonan María Pálsdóttir bílnum og sagði börnum sögur bæði í honum og við hann.
Ólöf Sverrisdóttir tók við af Maríu haustið 2008 og hefur ekið sleitulítið um borg og bí síðan þá.
Ævintýraveröldin í Æringja
„Krökkunum finnst alltaf jafn gaman að koma í Æringja, sitja í lestrarsvæðinu aftast í bílnum og hlusta á sögur. Þar komast 12 börn fyrir í einu. Þegar ég sit með þeim slekk ég ljósin og kveiki á stjörnunum í loftinu. Þá opnast ævintýraveröld í bílnum og meira að segja óþekkustu börnin verða dáleidd“ segir Ólöf þar sem hún situr í sæti sínu í sögubílnum Æringja. Hún er með hrútinn Hrólf í fanginu en hann notar hún til að kenna börnum ýmisleg orð, helst gömul og önnur flóknari sem tengist fjárbúskap. Bíllinn er klæddur dökkum flauelstjöldum að innan og með hillur sem á eru barnabækur og ýmsar brúður.
Ólöf ekur sögubílnum sjálf. Þetta er sendiferðabíll sem lítur vel út þótt hann sé að komast til ára sinna. Brian Pilkington, sá þjóðþekkti teiknari vann samskeppni um skreytingu bílsins og er hann höfundur myndanna utan á honum. Ofan á þakinu er kóróna og því erfitt að taka ekki eftir bílnum.
Ólöf ekur um á sögubílnum á alla leikskóla í höfuðborginni 3-4 daga í viku og er með 2-3 sögustundir á dag. Hún heimsækir frístundaheimili, er á viðburðum og oft pöntuð til að vera á ýmsum hverfahátíðum og tyllidögum. Þá opnar hún stundum afturhurðina á bílnum og segir hópi barna sögur, stundum 2-300 í einu.
„Það getur verið mikið að gera á hverfahátíðum og stundum hefur verið biðröð,“ segir hún. „Flest börnin komu þegar ég var með bílinn í Grasagarðinum fyrir jól og sagði 200 börnum í hvert sinn söguna um jólaköttinn. Í heildina komu 2.000 börn.“
Fyrir Barnamenningarhátíðir vinnur Æringi oft með skólum eða leikskólum að allskonar verkefnum sem enda svo í viðburði á hátíðinni sjálfri. Í ár bjuggu krakkar í Ingunnarskóla og Melaskóla til sögur um sögukonurnar í bílnum sem eru Sóla sögukona, Nína norn, Björk bókavera og Æra Æringjadóttir (trúður).
Ólöf telur að um 200 – 300 börn hlusti á sögur í eða við sögubílinn Æringja í hverjum mánuði og stundum allt upp undir 300 í hvert sinn eins og Menningarnótt. Stundum eru þau mýmörg eða allt upp undir 4.000 á mánuði. Það gera 24.000 – 36.000 börn á tíu árum. Hún telur þau vel geta verið fleiri, allt upp undir 50.000.
„Þetta eru alveg hellingur!“ segir hún.
Í KrakkaRÚV er hægt að sjá og heyra Ólöfu lesa fyrir hópa barna ýmsar sögur: KrakkaRÚV
Öll börn geta fengið sögustund
Hægt er að panta sögubílinn Æringja í heimsókn á stofnanir, hverfahátíðir eða aðra viðburði í Reykjavík. Allar nánari upplýsingar veitir Ólöf Sverrisdóttir í síma 664 7718 eða senda henni tölvupóst á netfangið olof.sverrisdottir@reykjavik.is