Soffía Ingibjargar: Krakkar þurfa að læra hvernig forritin virka

koder_3

Eruð þið foreldranir og börnin oft í tölvunni og haldið að þeir sem hangi í þeim viti allt um tölvur?

Soffía Ingibjargar segir það ekki rétt.

Soffía er kennslustjóri hjá samtökunum Kóder, sem vilja kynna forritun fyrir ungmennum á aldrinum 9-16 ára.

Leiðbeinendur Kóder verða með tækni- og tilraunaverkstæði í Borgarbókasafninu í Grófinni í Reykjavík laugardaginn 9 júlí frá klukkan 14:00 til 16:00. Það frábæra við verkstæðið er að það er opið öllum börnum og foreldrum sem finnst gaman að fikta og læra eitthvað nýtt. Ekkert kostar að taka þátt.

Þennan dag er spáð rigningu eða alla ekki góðu veðri og þá er tilvalið að skella sér á verkstæðið í Borgarbókasafni.

En hvað segir Soffía?

„Það er mikill misskilningur að halda að þótt krakkar eyði miklum tíma í tölvum þá kunni þau allt um tölvur. Það er allt annar handleggur að kunna að nota tölvur en að skilja hvernig tölvur og forrit virka og hvernig þau geta búið þau til sjálf,“ segir hún.

„Forritun er í rauninni bara „lógík“ og því nýtist forritunarkennsla ekki síður sem kennsla í rökhugsun og stærðfræði en sem kennsla á tölvur. Að spyrja hvort krakkar kunni ekki nóg í forritun af því þau kunna á snapchat er því svipað eins og að spyrja hvort þau kunni ekki nóg í stærðfræði ef þau kunna að leggja saman. Í þessu samhengi má benda á að þótt við notumst við tölvuleikinn Minecraft í kennslunni hjá okkur erum við ekki að kenna krökkunum að spila leikinn, heldur erum við að kenna þeim að forrita í forritunarmálinu Python en þau sjá kóðann sem þau forrita birtast inni í leiknum.“

uti+

Hvað er Kóder?

„Kóder er hugsjónastarf. Við erum öll í öðrum störfum, eða námi, og sinnum þessu í frítímanum okkar. Kóder eru frjáls félagasamtök og starfa án gróðahugsjónar. Allar okkar tekjur fara aftur beint í samtökin og til að greiða laun leiðbeinenda á námskeiðunum. Þannig getum við haldið námskeiðsgjöldunum eins lágum og hægt er,“ segir Soffia Ingibjargar.

Svona varð Kóder til

„Hugmyndin að Kóder kviknaði í október 2015. Við byrjuðum á því að sækja um styrki fyrir búnaði og ákváðum að fara af stað með verkefnið ef styrkir bærust. Verkefnið átti upphaflega að standa yfir í 3 mánuði og ef viðtökur yrðu góðar myndi verkefnið halda áfram. Það liðu ekki nema nokkrir dagar þar til CCP svaraði okkur og styrkti Kóder um búnað fyrir heilu námskeiði, alls 20 Raspberry Pi tölvur með aukabúnaði. Þetta varð til þess að við fórum á fullt í að hanna kennsluefni og auglýsa námskeið. Fyrsta námskeiðið var haldið í febrúar 2016 í Sandgerði og síðan þá hefur eftirspurnin eftir námskeiðum verið mikil, sérstaklega úti á landi þar sem greinilega hefur ríkt skortur á tækifærum til forritunarmenntunar,“ segir Soffía.

Hvers vegna er þörf á því að kenna krökkum á tölvur?

koder_1

„Það sem okkur finnst vera að eiga sér stað á okkar tímum er mikill aðskilnaður frá innviðum tölvunar og notkun hennar. Tölvukennsla virðist enn vera á þeim stað að krakkar/unglingar læra á á Word og Excel, rétt eins og fyrir 20 árum síðan. Það virðist vera lítil sem enginn kennsla í forritun í grunnskólum, þ.e.a.s. kennsla í smíði á hugbúnaði og hvernig hann virkar. Á námskeiðunum okkar hefur komið í ljós að allt frá 10 ára aldri eru krakkar fullfærir um að skrifa kóða sem framkvæmir nákvæmlega það sem þau vilja. En kennslan teygir anga sína enn lengra. Sem dæmi þá kom til okkar stærðfræðikennari á Minecraft námskeið fyrir 10 – 13 ára krakka á Neskaupstað. Á því námskeiði erum við að kenna talnalínuna, hnit og almenna rúmfræði með því að nota Minecraft. Kennarinn kom til okkar eftir námskeiðið og átti ekki orð. Áhuginn á að leysa stærðfræðivandamál í leikjaumhverfi sem þau þekkja mjög vel skapar bæði mikinn áhuga hjá krökkunum og veitir þeim aukinn skilning á stærðfræðinni.“

En hvað með spjaldtölvurnar?

„Spjaldtölvuvæðingin er svo önnur umræða en henni fylgir bæði takmörkuð notkun og kostnaður. Spjaldtölvur eiga væntanlega sinn stað í menntakerfinu þegar kemur að lesskilningi og þrautum fyrir yngstu bekkina en ef grunnskólakrakkar eiga að kynnast mismunandi stýrikerfum og eiga möguleika á að fikta við frjálsan hugbúnað þá er spjaldtölvuvæðingin ekki að fara að leysa það vandamál. Á okkar námskeiðum notum við tölvu sem kallast Raspberry Pi sem kostar aðeins $35 (um 5000 krónur) og keyrir á Linux stýrikerfinu. Við hana tengjum við skynjara, ljósdíóður og fleira sem krakkarnir forrita svo sjálf lausnir sem stýrir þessum búnaði. Þetta er yfirleitt mest spennandi hluti námskeiðsins.“

 

Hvað er hægt að læra hjá Kóder?

koder_2

„Sem stendur halda Kóder nokkur mismunandi námskeið og vinnusmiðjur. Til dæmis eru haldin námskeið þar sem grunnatriði forritunar eru kennd í gegn um forritið Scratch, sem er mikið notað í forritunarkennslu, haldin eru námskeið í Python forritun með því að nota tölvuleikinn Minecraft og einnig með því að kenna á notkun rafrása. Við höfum líka haldið námskeið í vefforritun.“

„Kóder byggir á DIY (Gerðu það sjálf/ur) hugmyndafræði. Tölvurnar okkar voru keyptar ósamsettar og svo skrúfaðar saman við stofuborðið. Á sama hátt byggjum við á þeirri hugmynd að hægt sé að læra hvað sem manni dettur í hug. Frekar en að spyrja „hvað er hægt að læra nýtt hjá Kóder“ myndum við spyrja „hvernig ætlum við að læra það?“ Þar sem Kóder eru félagasamtök en ekki fyrirtæki geta þeir sem telja sig hafa einhverja áhugaverða þekkingu fram að færa í heimi forritunar fengið að halda námskeið á okkar vegum.“

Eruð þið tölvu- eða tæknimenntuð hjá Kóder?

„Hjá okkur eru kerfisfræðingur og tölvunarfræðinemar ásamt leiðbeinendum úr Tækniskólanum í Reykjavík. Sjálf stefni ég að því að klára tölvunarstærðfræði við HR um áramótin.“

 

Eiga mamma og pabbi að koma með?

„Það er alls ekki skylda fyrir foreldra að mæta með börnum sínum á Kóder námskeið en við hvetjum foreldra til að mæta þar sem þau geta þannig eignast sameiginlegt áhugamál með börnum sínum og læra sjálf forritun í leiðinni. Í vetur verða svo haldnir opnir dagar í samstarfi við Borgarbókasafnið þar sem stílað er inn á að foreldrar mæti með börnum sínum.“

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd