Skrímslin svamla um í Arnarfirði

Skrímsli hafa sést um allt land í gegnum aldirnar. En flest hafa þau sést í hinum geysilega stóra og fallega Arnarfirði á Vestfjörðum. Arnarfjörður er skrímslafjörðurinn. Dæmi munu vera um að togarar hafi fengið skrímsli í vörpuna. Svo algeng eru skrímslin að fólk sem hefur átt leið um Arnarfjörð hefur verið varað við hættunni af skrímslum.

Hvar eru mestu líkurnar á að sjá sjóskrímsli? Jú, í Arnarfirði á Vestfjörðum.

Svo mikið er um skrímsli í Arnarfirði að hópur fólks frá Bíldudal með áhuga á þessum kvikindum kom sér saman um að stofna skrímslasetur í bænum. Hópurinn keypti gömlu verksmiðjuna sem framleiddi á árum áður allt sem hægt var að sjóða niður í dósir, niðursoðið grænmeti, niðursoðið kjöt, niðursoðinn fisk og vann líka rækjur. Þekktustu niðursuðuvörur fyrirtækisins voru án nokkurs vafa Bíldudals grænar baunir, sem allir landsmenn þekktu.

En hvað um það. Niðursuðudósirnar eru löngu horfnar úr Skrímslasetrinu, sem opnaði árið 2008.

Fólk sem glímir við skrímsli

Á Skrímslasetrinu á Bíldudal er haldið utan um allar þær sögur sem til eru af skrímslum sem fólk hefur séð á Íslandi. Þar er hægt að hlusta á og lesa frásagnir fólks af viðureignum fólk við allskonar skrímsli og sjá hvernig stór og skelfileg skrímsli sem sést hafa á Íslandi líta út.

En hvaða skrímsli eru í Arnarfirði?

Fjögur skrímsli eru þekktust og hafa þau öll sést í Arnarfirði. Þetta eru Fjörulalli, Faxi, Skeljaskrímsli og Hafmaður.

Flestir sjá Fjörulalla

Fjörulallinn er algengastur. Í Skrímslasetrinu eru allavega 36 skjalfestar frásagnir um Fjörulalla en síðast sást til þessarar skepnu um sumarið 2014.

Fjörulallinn er á stærð við hest nema miklu lágfættari. Hann er loðinn og hanga þaraþönglar, hrúðurkarlar og skeljar niður úr feldi hans. Hann er grábrúnn að lit með langa trjónu og kubbslegur í hreyfingum. Fjörulallinn reynir að læðast upp fyrir fólk í fjörunni og þröngva þeim með sér niður í sjóinn. Mönnum hefur tekist að sleppa frá honum með því að hlaupa eða stökkva yfir hann. Hann hefur oft sést á fjörubeit með kindum og eru til sagnir úr Breiðafirði þess efnis að Fjörulalli reyni að fara upp á kindurnar. Einnig eru nokkrar sögur til um að Fjörulalli laðist að óléttum konum af einhverjum undarlegum ástæðum. 

Skeljaskrímslið

Skeljaskrímslið er sagt kubbslegt, höfuðstórt og kjaftmikið ferlíki, ekki ósvipað flóðhesti en miklu stærra. Sjónarvottar hafa lýst því vera á stærð við risaeðlu. Það er þakið skeljum og það hringlar í skeljunum er það gengur á land.

Skeljaskrímslið sást síðast 1951 og þá frá nokkrum bæjum í Arnarfirði.

Faxaskrímslið

Faxaskrímsli, Marhross eða Faxi er stórskrímsli með rautt fax og stór áberandi græn augu. Þessi skepna er sögð vera mjög lík drekum úr kínverskri list og víðar um heim. Faxaskrímslið hefur oft sést í Arnarfirði og talið geta verið sama skepnan og kölluð var Rauðkembingur á öldum áður. Sjómönnum stafaði mikil hætta af þessu dýri.

Sást síðast inni í Geirþjófsfirði tvö saman vorið 2010.

Í dag telja menn að skepna þessi lifi helst á Kúfskel og öðrim skelfiski.

Hafmaðurinn

Hafmaðurinn kemur sjaldan upp á land en þá gengur hann á tveimur fótum og dregur þungan magann eftir jörðinni. Hann er með mjög stuttar hendur og á þeim eru langar klær. Andlitið er lítið annað en kjaftur og augu. Kjafturinn er alsettur löngum beittum tönnum og augun eru starandi, mislit eftir frásögnum. Sagt er að menn hafi orðið vitstola af því einu að horfa framan í Hafmanninn.

Þið þurfið líklega ekki að hafa miklar áhyggjur af Hafmanninum, því síðast sást til hans fyrir um 150 árum.

Heilmikið fjör er að Það er opið á sumrin á milli klukkan 10:00 – 18:00 alla daga frá 1. júní til 31. ágúst.
Skrímslasetrið á Bíldudal, Strandgötu 7 í Bíldudal.
Sími 456-6666 skrimsli@skrimsli.is.

Upplagt er að skoða Facebook-síðu Skrímslasetursins til að enginn verði hræddur áður en farið er þangað í heimsókn.

Smelltu hér til að skoða Facebook-síðuna

Hér má sjá nokkrar myndir frá stórkostlegu Skrímslasetrinu. Hægt er smella á myndirnar til að stækka þær.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd