„Í Vetrargarðinum verður áhersla lögð á fjölskylduvænt svæði fyrir vetraríþróttir. Við munum framleiða snjó á svæðinu og þurrskíðabraut og túbubraut verður opin allt árið,‟ skrifar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, um Vetrargarð sem verið er að þróa í Breiðholti. Vangaveltur eru jafnvel um að kaupa búnað sem getur framleitt snjó í Ártúnsbrekku og víðar sem geti fjölgað þeim dögum sem fólk getur notið þess að bruna á skíðum á höfuðborgarsvæðinu.
Þróun Vetrargarðsins var nýverið samþykkt í borgarráði og eru drög að garðinum á borði Umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar sem á að útfæra verkefnið nánar.
Gert er ráð fyrir að öllum framkvæmdum við Vetrargarðinn og tengd verkefni ljúki árið 2026.
Skíði á öllum dögum ársins
Lagt er upp með að í Vetrargarðinum verði skíðaaðstaða og útivistarsvæði þar sem áhersla verður lögð á börn og byrjendur. Þjónustubygging verður efst á hæðinni í Vetrargarðinum. Gerð verður ráð fyrir leikaðstöðu á svæðinu auk þess sem til stendur að leggja fjallahjólabrautir.
Horft er til þess að með snjóframleiðslu í Vetrargarðinum í Breiðholti og þurrskíðabraut verði hætt að taka á móti hópum fólks allt árið um kring. Snjóframleiðsla mun líklega fjölga opnunardögum umtalsvert frá því sem nú er.
Gert verði ráð fyrir því að svæðið verði mótað þannig að það henti sem best til skíðaiðkunar.
Auk þess verði gert ráð fyrir þurrskíðabrekku og túbubraut nyrst á svæðinu sem nýtast allt árið um kring og gönguskíðaleið ofan Seljahverfis.
Þjónustubygging verður staðsett efst á hæðinni en þar er víðsýnt yfir borgina.
Snjór um alla borg
Fram kemur í tillögu borgarstjóra, að samhliða uppbyggingu vetraríþrótta í Breiðholti verði gert ráð fyrir leikaðstöðu inn á svæðinu auk þess sem fjallahjólabrautir verða lagðar um það. Í jöðrum svæðisins og við skíðabrekkur verður lögð áhersla á trjárækt til skjólmyndunar og snjósöfnunar.
Í tillögu borgarstjóra er gert ráð fyrir að færanleg snjóframleiðsla verði sett upp í Ártúnsbrekku í byrjun árs 2022 og gerð tilraun til að framleiða þar snjó. Hægt verður að færa búnaðinn svo hann nýtist á öðrum stöðum í Reykjavík, svo sem í skíðabreunni í Grafarvogi og jafnvel tengst skíðaviðburðum í Reykjavík.
Það sé einmitt mikilvæg forsenda til að afla reynslu í snjóframleiðslu innan Reykjavíkur. Sú reynsla muni nýtast í uppbyggingu snjóframleiðslu í Vetrargarðinum.
Með snjóframleiðslu í Ártúnsbrekku skapast jafnframt tækifæri til að fjölga dögum til að njóta skíðaíþróttarinnar á höfuðborgarsvæðinu.