Skessan í hellinum – þorirðu að heimsækja hana?

Skessan í hellinum heimsótt

Skessan í hellinum reyndist þessari stúlku ekki skeinhætt heldur fór bara vel á með þeim.

Á Ljósanótt árið 2008 fluttist skessa nokkur sem heima átti upp í fjöllum í Svartahelli við smábátahöfnina í Gróf í Reykjanesbæ. Eftir það hefur hún verið kölluð Skessan í hellinum. Þar unir hún sér vel enda útsýnið út yfir sjóinn fallegt og þar nýtur hún líka félagsskapar forvitinna og hressra krakka.

Haft er eftir ungu fólki sem heimsótt hefur skessuna að hún gefi frá sér ýmis búkhljóð sem myndu sennilega seint teljast góðra mannasiða en að öðru leyti sé þetta vænsta grey þó ekki sé hún sérlega fríð.

Skessan í hellinum er hluti af þjóðsagnaarfinum

Skessan í hellinum byggir á bókum Herdísar Egilsdóttur sem skrifaði hvorki meira né minna en sextán bækur um Siggu og skessuna. En hugmynd Herdísar er að sjálfsögðu sótt í íslenskan þjóðsagnaarf.

Þegar skessan í hellinum er heimsótt er tilvalið að rifja upp íslenskar þjóðsögur sem margar fjalla um tröll og aðrar furðuverur. Dæmi um slíkar sögur eru t.d. Bergbúinn (tröll sýna vinsemd), Búkolla og Trunt, Trunt og Tröllin í fjöllunum. Þessar og fleiri slíkar má finna á heimsíðu Skessunnar í hellingum.

Á sömu heimasíðu kemur fram að Skessan í hellinum tekur gjarnan við bréfum og myndum frá börnum. Þar má finna myndir sem prenta má út og lita og einnig lýsingar á mörgum skemmtilegum leikjum sem fjölskyldan getur leikið saman.

Ef fjölskyldan á leið um Reykjanesbæ ætti engum að verða meint af því að heilsa uppá Skessuna í hellinum.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd