Barnadagur hefur verið haldinn árlega í Viðey frá árinu 2008. Hann verður nú haldinn níunda árið í röð laugardaginn 25. júní.
Þetta hafa verið skemmtilegir dagar enda hefur verið boðið upp á trúða og annað hressilegt sem er vinsælt hverju sinni fyrir káta krakka sem vilja fatta þessa flottu eyju spottakorn frá Reykjavík.
Barnadagurinn í Viðey er helgaður börnum og fjölskyldum þeirra. Viðey hentar líka vel til leikja enda þar ágætis tún og fjörur.
Ýmislegt skemmtilegt hefur verið boðið upp á fyrir börn í Viðey. Í fyrra var til dæmis boðið upp á kennslu í flugdrekagerð og kennt að tína kúmen í eyjunni.
Leikhópurinn Lotta og jógakennari
Samkvæmt upplýsingum frá Borgarsögusafni munu Skátarnir úr Landnemum taka þátt í dagskránni ásamt Leikhópnum Lottu og Skringli skógarálfi. Arnbjörg Kristín jógakennari mun svo leiða fjölskylduslökun.
Frír ís verður í boði allan daginn – eða á meðan birgðir endast. Svo verður líka hægt að kaupa grillaðar pylsur við Viðeyjarstofu allan daginn.
Dagskrá Barnadaga í Viðey hefst klukkan 13 og lýkur henni klukkan 16.
Þetta er í boði
13:00-13:30 Leikhópurinn Lotta með fjöruga söngvasyrpu!
14:00-15:00 Jógaleikhús. Ævintýraferð Skringils skógarálfs og vina hans um Viðey.
15:15-15:45 Fjölskylduslökun við Friðarsúluna. Arnbjörg Kristín jógakennari leikur á gong.
13:00-16:00 Skátarnir Landnema með skemmtilega leiki. Allir mega taka þátt!
13:00-15:00 Fjörugar furðuverur verða í eynni og heilsa upp á krakka.
13:00-16:00 Rannsóknarleiðangur í fjörunni. Komið með háfa og fötur.
13:00-16:00 Pylsur til sölu við Viðeyjarstofu. Frír ís á meðan birgðir endast.
Drífið ykkur í ferjuna
Þið sem ætlið að drífa ykkur út í Viðey getið tekið ferjur sem fara frá Skarfabakka á klukkustundar fresti allan daginn.
Best er að fjölskyldur sem ætla að ná Leikhópnum Lottu að ná ferjunni sem fer klukkan 12:15 því oft myndast biðraðir á bakkanum.
Ódýrt og skemmtilegt
Þátttaka er gestum að kostnaðarlausu en fullorðnir greiða 1.200 kr. fyrir ferjuna fram og til baka og börn 7-15 ára greiða 600 kr. Frítt fyrir börn yngri en 7 ára.