Skátastarf talið hafa jákvæð áhrif á heilsuna

Skátar

Fólk er aldrei of gamalt til að leika sér. Þvert á móti verður fólk gamalt þegar það hættir að leika sér. Þetta segir Bragi Björnsson skátahöfðingi. Hann bendir á að fólk sem er í skátastarfi sé upp til hópa bjartsýnt og glaðlynt.

Rætt er við Braga í Morgunblaðinu í tengslum við umfjöllun um niðurstöður rannsóknar á skátalífi.

Rannsóknin var gerð á vegum háskólanna í Edinborg og Glasgow í Skotlandi. Þetta var lífsstíðarrannsókn sem næstum 10.000 manns tóku þátt í vítt og breitt um Bretland. Allir þátttakendur voru fæddir í nóvember árið 1958 og því 58 ára á árinu. Um fjórðungur þátttakenda hafði tekið þátt í starfi skáta.

Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að þeir sem voru í skátunum voru 15% ólíklegri en aðrir þátttakendur að þjást af kvíða eða annarri andlegri vanlíðan á fullorðinsárum. Skátastarfið hefur því  jákvæð áhrif til lífstíðar og eru þeir sem taka þátt í því við betri andlega heilsu en aðrir síðar á ævinni. Fram kemur í greininni í Morgunblaðinu að draga megi þá ályktun að ástæðan geti verið sú að þrautseigja og sú staðfesta sem krafist er í skátastarfinu hafi jákvæð áhrif. Þá er talið að skipulagt starf á borð við skátastarfið bæti sjálfstraust barna, þau hafi gott af því að vinna í hópum, útiverunni og geti það saman lagt haft þessi góðu áhrif til lífstíðar.

Skátar

Fram kemur í viðtalinu við Braga skátahöfðingja að hann hafi verið í skátunum í 36 ár eða frá því hann var 12 ára.

Hann segir:

„Í öll þessi ár hef ég alltaf verið að fá nýjar áskoranir og ég held að það hafi góð áhrif á mann andlega. Fólk fær örvun af því að fást við allt annað en það sem það kljáist við í daglegu lífi sínu.“

En hvað hefur Bragi lært í skátunum?

Hann segir það vera þrennt: Hjá skátunum hafi hann öðlast færni í að leysa úr vandamálum, bætt hæfni sína í samskiptum og þjálfun í að vera í forystunni en líka að fylgja með.

 

Hvað veistu um skátana?

Á Íslandi eru 26 skátafélög, þar af 13 á höfuðborgarsvæðinu og 13 á landsbyggðinni.

Vefsíða skátanna er www.skatarnir.is og er það hægt að finna ítarlegar upplýsingar um skátana.

Hvað gera skátarnir?

Skátar

Skátar fara í útilegur og ferðalög, þeir syngja og sprella, spila tónlist og klífa fjöll, setja upp leikrit og sigla á kajökum, smíða, mála, klippa, tálga, dansa og byggja snjóhús.

Markmið með skátastarfi

Markmið skátastarfs er að þroska börn og ungt fólk til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu.

Með skátastarfinu viljum við stuðla að því að skátar:

  • Sýni sjálfum sér, öðrum og umhverfinu virðingu.
  • Taki tillit til skoðana og tilfinninga annarra.
  • Séu skapandi og sjálfstæðir í hugsun, orði og verki.
  • Geri ávallt sitt besta og hræðist ekki að gera mistök.
  • Lifi heilbrigðu lífi og séu traustir félagar og vinir.

 

Skátar

Þeir séu viljugir til að axla ábyrgð og ljúki þeim verkefnum sem þeir taka að sér, lifi lífinu af gleði og ánægju, hafi hugrekki til þess að láta drauma sína rætast og nýta þau tækifæri sem skapast.

Það er líka mikilvægt að skátar skilji og njóti eigin menningar og annarra og stuðli að friði, jafnrétti og bræðralagi manna á meðal.

Skátarnir hafa byggt upp útilífsmiðstöðvar síðustu ár til að efla þátt útilífs í starfinu. Útilífsmiðstöðvar skáta eru á Úlfljótsvatni og að Hömrum við Akureyri.

Myndirnar sem fylgja umfjölluninni voru alla teknar á Úlfljótsvatni.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd