Í vikunni opnaði „pop-up“ bókasafn í gróðurhúsinu á Lækjartorgi þar sem starfsmenn taka á móti gestum og gangandi og kynna þeim fjölbreytta starfsemi menningarhúsa Borgarbókasafnsins. Þar á meðal er sú þjónusta sem ekki er ný af nálinni, svo sem verkstæðin þrjú þar sem börn og fullorðnir geta uppgötvað og lært nýja tækni. Þar fá þau líka aðgang að ýmis konar tólum, tækjum og forritum, verkefni sem snúast um borgaralega þátttöku, sumarsmiðjur fyrir börn og unglinga og ótal aðra hluti sem koma á óvart og ekki allir tengja við starfsemi bókasafna.
Um helgina verður boðið upp á fjölskylduvæna dagskrá í borginni. Sirkus unga fólksins sýnir listir sínar á laugardaginn klukkan 13:00 og trúðavinkonurnar Silly Suzy og Momo troða upp klukkan 15:00. Á sunnudag á milli klukkan 14:00-16:00 verður himininn yfir Lækjartorgi þakinn með risastórum sápukúlum í öllum regnbogans litum.
Þeir sem vilja spreyta sig í sápukúlugerðinni geta skráð sig í smiðjuna á vefsíðu Borgarbókasafnsins. Allir sem vilja geta líka komið og fylgst með.
En svo er bókasafnið í gróðurhúsinu á Lækjartorgi líka opið daglega til 15. maí á milli klukkan 12:00-18:00. Bara er lokað á Uppstigningardag.
Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á www.borgarbokasafn.is og https://www.facebook.com/Borgarbokasafnid.
Svona er dagskráin
Laugardaginn 8. maí kl. 13:00 – 14:00
Sirkus unga fólksins
Laugardaginn 8. maí kl. 15:00 – 15:45
Silly Suzy og Momo troða upp
Sunnudaginn 9. maí kl. 14:00-16:00
Sápukúlusmiðja