
„Þetta var svolítið sérstakt og færði mig út fyrir þægindarammann. Tilhugsunin um að eiga jógastund án nemenda var skrýtin og undarlegt í fyrstu að tala við sjálfa sig. En þetta var undarlegt því ég hafði ekki gert það áður. En svo fór ég inn í flæðið og þá varð allt í lagi,‟ segir leikskólakennarinn og jógaleiðbeinandinn Sigurbjörg Gunnarsdóttir. Hún var með krakkajóga í Bókasafni Reykjanesbæjar á laugardagsmorgun.
Sigurbjörg hefur nokkrum sinnum boðið upp á krakkajóga á bókasafninu og hafa þá krakkar og forráðamenn þeirra komið á safnið og tekið þátt í jógastundinni.
Grípa þarf til annarra ráða í samkomubanni. Bókasafnið var lokað, Sigurbjörg ein á mottunni og stýrði hún krakkajóganu í beinu streymi á Facebook-síðu bókasafnsins.
Sigurbjörg er kennari í leikskólanum Gimli í Reykjanesbæ. Leikskólinn starfar eftir Hjallastefnunni og sér Sigurbjörg um jógastundir fyrir börnin í skólanum í hverjum kjarna einu sinni í viku. Tíu eru í hverjum hópi og hverjum degi frá tveggja og upp í sex ára.

„Við höfum verið með jóga á Gimli í mörg ár því Hjallastefnan og jóga eiga svo góða samleið,‟ segir Sigurbjörg og bendir á að jóga geri börnum gott. Í krakkajóganum geri hún æfingar með börnunum, fari í stöður og vinnur með öndun og núvitund, gildi og tilfinningar, sjálfstraustið, samskipti, samkennd og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, kærleikanum og ræðum um hvernig við sýnum sjálfum okkur og öðrum kærleika.
„Fólk er almennt ekki upptekið af þessu. En ég hef tekið eftir því að í aðstæðum eins og núna þá leitar fólk inn í þennan kjarna sem við vinnum með í jóga. Það er svo gott og styrkir okkur,‟ segir hún og mælir með jóga fyrir börn.
„Jóga hjálpar fólki, bæði börnum og fullorðnum, að einbeita sér. Það er svo gott að börnin fái stund til að vera hér og nú og svo vinnur það gegn kvíða hjá börnum. Það er svo frábært að stunda jóga með börnum.‟
En Sigurbjörg segir börn kröfuharða nemendur.
„Börn eru mjög kröfuhörð. Þegar maður er í jóga með börnum þá þarf að halda þeim við efnið. Ef það tekst ekki verða þau fljótt áhugalaus og láta í sér heyra,‟ segir hún. Sigurbjörg kann að fanga athygli barnanna og segir hún þeim sögur sem hún spinnur í kringum jógastöðurnar.
Jógastundin á Bókasafni Reykjanesbæjar er enn aðgengileg á Facebook-síðu safnsins og geta áhugasamir tekið þátt í stundinni hvenær sem þeir vilja.
Sigurbjörg segir að ákveðið hafi verið að gera jógastundina aðgengilega öllum í einhvern tíma, bæði fyrir þá sem komast ekki frá þegar bókasafnið býður upp á hana en eins fyrir þá sem búa langt í burðu eða vilja kynna sér jóga fyrir börn.
Hún segir nú upplagt að skoða krakkajóga á Facebook.
„Við eigum flest að halda okkur heima og því er gott að skella sér í góða jógastund,‟ segir hún.
Hér er hægt að fylgjast með jógastund Sigurbjargar.
