Dagrún: Foreldrar mínir settu mig í pott

„Foreldrar mínir mínir voru mjög duglegir að fara með mig á söfn þegar ég var barn, enda unnu þau svolítið í safnabransanum. Fyrstu safnaminningarnar mínar eru af Byggðasafninu á Reykjum og Kört í Árneshreppi,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir, verkefnastjóri Alþjóðlega safnadagsins, sem haldinn verður hátíðlegur á morgun.

Alþjóðlegi safnadagurinn er eins og nafnið gefur að skilja alþjóðlegur og munu þá mörg þúsund söfn í 158 löndum opna dyr sínar fyrir gestum og gangandi og öllum þeim fjölskyldum sem hafa áhuga á að kíkja í heimsókn. Á morgun stöðum verða líka skemmtilegir viðburðir.

Margt er í boði á safnadeginum og er lítið mál að finna eitthvað gott í boði og fína upplifun fyrir fjölskylduna. Það skemmtilega við safnadaginn er að þema er í gangi á öllum söfnum sem taka þátt. Þemað á þessu ári er: Mikill er máttur safna. Í samræmi við það er horft til hlutverks safna í átt að sjálfbærni, nýsköpun og fræðslu.

Gaf heimalningum úr pela

En hvað með Dagrúnu sjálfa? Auðvitað langar okkur að vita hvað henni fannst gaman að skoða með foreldrum sínum í æsku.

Dagrún býr á Ströndum og ólst upp beint á móti Sauðfjársetrinu. Þar er hægt að fræðast um allt tengt sauðfjárbúskap á Íslandi.

Dagrún Ósk

„Ég heimsótti það mikið í æsku. Þar voru heimalningar sem þurfti að gefa að drekka úr pela og ég hafði mjög gaman að því og labbaði stundum yfir á safnið til að hjálpa til við að gefa þeim. Mér fannst líka alltaf gaman að fara á Árbæjarsafn og Þjóðminjasafnið þegar ég kom til Reykjavíkur, þar er allskonar skemmtilegt fyrir krakka og flottir hlutir.“

Dagrún segir frá einni af fyrstu safnaminningunum með foreldrum sínum þá þegar hún heimsótti Byggðasafnið á Reykjum.

„Á Reykjum er risastór pottur sem ég man að foreldrar mínir settu mig ofan í og þóttust ætla að elda mig og við Kört er svo ótrúlega falleg náttúra og gaman að koma í Árneshrepp. Ég man líka ennþá eftir stuttermabolnum sem ég fékk í safnbúðinni í Kört. “ 

En fyrir hverju ætli hún sé spennt í ár?

„Í ár er ég spenntust fyrir því að fá að deila með sem flestum hvað er gaman að fara á söfn! Ég ætla að halda uppá safnadaginn með stæl og heimsækja eins mörg söfn og ég get í tilefni dagsins. Svo er ég mjög spennt fyrir sumrinu líka, að fara aftur til útlanda og auðvitað ferðast um landið, því mér finnst sérstaklega skemmtilegt að fara á söfn sem ég hef ekki séð áður og sjá og læra nýja hluti.“   

Facebook-síða Alþjóðlega safnadagsins

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd