Sævar smíðar hús fyrir smáfuglana

Góð aðsókn var í smiðju á Árbæjarsafni um helgina þar sem þúsundþjalasmiðurinn Sævar Líndal Hauksson hafði umsjón með að sýna fólki hvernig á að setja saman fuglahús. Hann segir nóg hafa verið að gera í að aðstoða bæði börn og fullorðna. Tvær smiðjur voru haldnar sunnudaginn 29. maí og máttu fimmtán koma í hvora þeirra. Það nýtti fólk sér þrátt fyrir rigningu og leiðindaveður.

„Við bjuggumst við fáum vegna veðursins. En við höfum haft nóg að gera,“ segir smiðurinn Sævar sem stóð vaktina í rjáfrinu í húsi Karólínu vefara ásamt Úlfi Árnasyni, sem er að læra til smiðs. Þetta er fyrsta fuglahúsasmiðjan sem Árbæjarsafn stendur fyrir og eru miklar líkur á að þær verði fleiri. Fuglahúsasmiðjan var hluti af dagskrá Barnamenningarhátíðar.

Sævar er reynslubolti Árbæjarsafns í því að stýra smiðjum því hann hefur stýrt flugdrekagerðinni þar um árabil og séð um geymslur Árbæjarsafns í áratugi.

Fyrirkomulagið með fuglahúsasmiðjunum var á þann veg að hver fjölskylda sem skráði sig fékk allt sem þurfti til smíðarinnar í bréfpoka merktan safninu. Í pokanum var fuglahús í bútum, sem Sævar hafði sagað niður í trésmíðaverkstæði Árbæjarsafns, sandpappír, skrúfur og leiðbeiningar um samsetninguna. Leiðbeiningar voru auk þess á hverju borði. 

Sævar segir þetta frekar einföld hús. „Það eru auðvitað til flóknari hús. En það er miklu betra að hafa þau einföld fyrir börnin,“ segir hann og fékk lítinn tíma til að tala því nóg var um að vera í smiðjunni.

Þátttakendur fengu svo að taka húsin með sér heim, gátu hengt húsin upp í tré úti í garði og tekið þar á móti öllum smáfuglunum sem vilja kíkja í kotið og verpa. Þetta er upplagt því þegar fuglar fá öruggan stað til að verpa á eykst fjölbreytileiki fuglalífsins í borginni. Allir njóta góðs af því.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd