
Rokksafn Íslands – þar er hægt að snerta og prófa sem gefur safninu mikið gildi fyrir yngri kynslóðina
Rokksafn Íslands er nýlegt og skemmtilegt safn fyrir alla fjölskylduna. Það er staðsett í hinn stórglæsilegu Hljómahöll í Reykjanesbæ. Segja má að Hljómahöllin standi saman að því sem einu sinni var kallað Stapinn, Rokksafninu og glæsilegum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Það vantar ekkert uppá tónlistina þar frekar en fyrri daginn.
Í rokksafninu má kynna sér sögu íslenskrar rokk- og popptónlistar síðustu áratugina. Þar er að finna ýmis sögufræg hljóðfæri og muni sem tengjast þessari sögu auk hljómplatna, veggspjalda o.þ.h. Sagan og stakir viðburðir eru raktir í máli og myndum og framsetningin er skýr og skemmtileg. Auk þess býðst fróðleiksfúsum afnot af spjaldtölvu með Rokksafns-appinu þar sem enn frekari fróðleik er að finna.
Rokksafn Íslands: Sérsýning um Pál Óskar
Páll Óskar Hjálmtýsson er Íslendingum að góðu kunnur. Hann hefur glatt allt frá smábörnum uppí gamalmenni með líflegri og skemmtilegri tónlist og litríkum fatnaði og framkomu svo árum skiptir. Nú er í gangi sérsýning um þennan mikla poppsnilling í Rokksafninu. Þar geta aðdáendur skoðað mikinn fjölda muna úr fórum Páls, t.d. marga af hans skrautlegu búningum.
Einnig hefur verið safnað saman upptökum úr sjónvarpi og útvarpi þar sem Páll Óskar kemur við sögu. Þar kennir ýmissa grasa sem gaman getur verið að rifja upp.
Rokksafn Íslands: Gaman að prófa sjálf/ur
Það sem mörgum finnst mest spennandi, ekki síst yngstu kynslóðinni, er að hluti af sýningu Páls Óskars er upptökuklefi þar sem hægt er að taka lagið og taka upp sinn eigin söng við lög Páls. Jafnvel er hægt að hljóðblanda lög uppá nýtt út frá upprunalegum hljóðrásum upptakanna og þar með búa til sínar eigin útgáfur. Og það sem meira er þá fær maður stafræna útgáfu af þessari útgáfu.
Óhætt er að segja að þetta ásamt því að fá að berja húðir eða glamra á rafmagnsgítar finnst mörgum þeim sem yngri er alveg ótrúlega spennandi og skemmtilegt. Það er því alveg hægt að mæla með því fyrir alla fjölskylduna að leggja leið sína í Reykjanesbæ og kíkja við á Rokksafni Íslands.