Það má reikna með heljarinnar fjöri þegar Rokkhátíð Æskunnar verður haldin sunnudaginn 28. ágúst næstkomandi á Kex Hostel. Þetta er fyrsta skiptið sem Rokkhátíðin verður haldin. Hún hefst klukkan 13:00 og lýkur klukkan 17:00.
Rokkhátíðin er haldin af Heimilislegum sunnudögum í náinni samvinnu við sjálfboðaliðasamtökin Stelpur Rokka.
Rokkhátíðin er hugsuð fyrir krakka frá 5-14 ára aldri. En auðvitað eru krakkar á öllum aldri velkomnir á hátíðina, að sögn Benedikts Reynissonar hjá Kex Hostel. Hann gerir ráð fyrir 150-200 manns þegar mest verður í húsinu.
Aðstandendur Heimilislegra sunnudaga hafa staðið fyrir ýmsu hressilegu fyrsta sunnudag í hverjum mánuði á Kex Hostel, jóga fyrir fjölskylduna og ýmsu fleiru skemmtilegu.
Spurður um ástæðu þess að halda Rokkhátíð svarar Benedikt:
„Það er einstaklega mikil gróska í tónlistarlífinu og með tilstuðlan Stelpur Rokk hefur verið mikil vakning meðal ungra tónlistarkvenna og við viljum stuðla að því að boðskapurinn dafni og dreifist enn meira.“
Allt að gerast
Soldill leynibragur er yfir tilkynningu sem send var út í tilefni af Rokkhátíð Æskunnar. Á morgun (miðvikudag) verður haldinn blaðamannafundur á Kex Hostel þar sem menningarblaðamenn og ljósmyndarar eru sérstaklega velkomnir. Þá mun nú skýrast meira hvernig þessi herlegheit verða.
Úllendúllen mun að sjálfsögðu fylgjast vel með og skýra betur frá Rokkhátíð Æskunnar þegar nær dregur.
Tilkynningin lofar mjög góðu

Krakkar hafa mjög gaman af tónlistarsmiðjum. Þær voru yfirleitt fullbókaðar sem Benni Hemm Hemm stóð fyrir í Krakkamengi í vor. Gestaleiðbeinendur í smiðjunum voru meðal annars þau Víkingur Heiðar Ólafsson og Kristín Anna Valtýsdóttir, Futuregrapher, Kira Kira, Magga Stína og Finnbogi Pétursson. MYND / Mengi
Fram kemur í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar að dagskráin er samansett af lifandi tónlistaratriðum í bland við gagnvirka fræðslu og vinnusmiðjur þar sem krakkar fá að fikta í hljóðfærum sem búin eru til úr ávöxtum, þau fá að smíða sinn eigin míkrófón, gera barmmerki, grúska í raftónlist og margt fleira sem tengist tónlist og tónlistarsköpun.
Á meðal þeirra sem fram koma á Rokkhátíð Æskunnar í bókahorninu á Kex Hostel (þar eru nefnilega oftast tónleikarnir á staðnum) eru tónlistarfólk og rokkarar á borð við Hildur, RuGl, Hasar Basar, Meistarar Dauðans, Hush Hush og fleiri. Í salnum Gym & Tonic verða Stelpur Rokka, Futuregrapher, Skema, Jónsson & LeMacks, Mussila og fleiri með fræðslu og smiðjur um tónlist.
Hvað eru Stelpur rokka?
Stelpur rokka! eru samtök sjálfboðaliða sem starfa af femínískri hugsjón við að efla ungar stelpur í gegnum tónlistarsköpun. Kjarninn í starfinu eru rokksumarbúðirnar, þar sem stelpur læra á hljóðfæri, spila saman í hljómsveit, kynnast farsælum tónlistarkonum, fræðast um ýmsar hliðar tónlistar og jafnréttisstarfs og koma fram á lokatónleikum fyrir framan fullan sal vina og fjölskyldu.
Um 275 stelpur og konur hafa tekið þátt í rokkbúðum Stelpur rokka síðastliðin fjögur ár og myndað 60 hljómsveitir. Þar öðlast þátttakendur aukið sjálfstraust, frumkvæði og þor með því að starfa saman og virkja eigin sköpunarhæfileika.
Pingback: Rokkhátíð Æskunnar haldin í fyrsta sinn – Betri fréttir