„Mér finnst Rokkhátíð Æskunnar mjög skemmtileg. Í fyrra komu á bilinu 300-400 krakkar og foreldrar. Það var gríðarlega mikið fjör og frábært að sjá sköpunarkraftinn í ungdóminum. Þátttakendur í fyrra voru mjög virkir í að prófa allskonar hluti, smíðuðu míkrófóna, gerðu raftónlist, barmmerki og hönnuðu lógó hátíðarinnar nú í ár,“ segir Benedikt Reynisson hjá Kex Hosteli.
Aðgangur á Rokkhátíð Æskunnar er fríkeypis og opinn fyrir krakka á öllum aldri.
Rokkhátíð Æskunnar verður haldin í annað skiptið á KEX Hostel nú sunnudaginn 10. september. Dagskrá hátíðarinnar er samansett af lifandi tónlistaratriðum í bland við gagnvirka fræðslu og vinnusmiðjur þar sem krakkar fá að fikta í hljóðfærum sem búin eru til úr ávöxtum, gera barmmerki, grúska raftónlist, þeyta skífum og mörgu, mörgu fleiru.
Rokkhátíðin er fyrir alla aldurshópa en helst miðuð á krakka á grunnskólaaldri. Hátíðin er haldin af Heimilislegum Sunnudögum í náinni samvinnu við sjálfboðaliðasamtökin Stelpur Rokka! líkt og í fyrra.
Benedikt finnst gaman að geta í gegnum Rokkhátíð Æskunnar stuðlað að innblæstri til sköpunar og að sjá samtakamáttinn sem tónlist og sköpun bera með sér.
„Í sköpun tengist fólk og allir eru jafnir. Það er æðislegt að vinna með Stelpur Rokka sem með krafti sínum hafa gert magnaða hluti síðastliðin 5 ár,“
Þétt dagskrá fyrir alla
Á meðal þeirra sem koma fram þetta árið eru Áttan og fleiri í bókahorninu á KEX Hostel og í Gym & Tonic verða Stelpur! Rokka, Kira Kira, Skema, Mussila og fleiri með fræðslu og smiðjur.
Dagskráin hefst klukkan 13:00 og og stendur hún til kl. 15:30. Dagskráin skiptist í tvennt; tónleikaprógramm í bókahorninu á KEX Hostel og í smiðjur og kynningar í Gym & Tonic salnum.
TÓNLEIKADAGSKRÁ
Tónleikadagskráin innheldur hljómsveitirnar Chicken Darkness, Jens og Smekkur úr rokkbúðum sumarsins hjá Stelpur Rokka!, Áttan mætir og hljómsveitin Gróa sem varð til í rokkbúðum Stelpur Rokka! og spilar m.a. á Iceland Airwaves í ár.
- 14:00 Jens
- 14:15 Smekkur
- 14:30 Chicken Darkness
- 14:45 Gróa
- 15:15 Áttan
SMIÐJUR OG KYNNINGAR
- Stelpur Rokka! verða með kynningu á starfi sínu og munu m.a. kenna krökkum að gera sín eigin barmmerki og ýmislegt fleira.
- Raftónlistarkonan Kira Kira kennir trixin á bakvið raftónlist og allir fá að fikta.
- DJ Silja Glømmi verður með plötusnúðasmiðju.
- Skema kynnir ýmisleg tækniundur sem gefur krökkum kleift að búa til tónlist.
- Mussila sem er tónlistarsmáforrit fyrir börn. Mussila nýverið gerði samning við leikfangakeðjuna Hamley’s keðjuna um dreifingu og þróun á forritinu.