Risinn Búri passar upp á Elliðaárdal

Ekki þarf að fara langt til að komast í friðsældina í guðsgrænni náttúru og finna leiksvæði fjarri skarkalanum.

Elliðaárdalurinn í Reykjavík er en satt einn af þessum stöðum, já jafnvel þótt dalurinn sé á milli umferðaræða í höfuðborginni.

Til gamans má geta að Elliðaár renna úr Elliðavatni en bæði vatnið og árnar eru kenndar við skip Ketilbjörns gamla landnámsmanns sem getið er í Landnámu.

En Elliðaárdalurinn er ekki bara útivistarperla í borg heldur líka samgönguæð. Þarna stundar fólk göngur og mikill fjöldi af hlaupandi fólki á milli stíga sem tengja saman Breiðholt, Fossvogsdal og meira að segja Heiðmörkina. Í skóginum sjálfum eru fallegir skógarstígar og má þar sjá fjölda fugla, stöku mink og kanínur sem eru þar næstum því villtar í dalnum og eru fjölmargar enda fjölga þær sér eins og þær eiga náttúru til.

Á vef Reykjavíkurborgar segir að Elliðaárdalurinn sé eitt stærsta græna svæðið innan þéttbýliskjarna Reykjavíkur. Hann er líka eitt vinsælasta svæðið til útivistar, leikja og íþróttaiðkunar af ýmsu tagi. Dalurinn einkennist af fjölbreyttu umhverfi, landslagi og gróðurfari en þungamiðjan eru Elliðaárnar sem dalurinn er kenndur við.

Elliðaár falla úr Elliðavatni í norður og vestur milli Breiðholts og Selás- og Ártúnsholts í tveimur kvíslum. Má segja að þær skipti borginni í tvennt við Elliðaárósa. Lax gengur upp í árnar og eru þær með vinsælli laxveiðiám á suðvesturhorni landsins. Þar hefur verið stunduð veiði frá örófi, að talið er frá upphafi byggðar. Danakonungur átti þar laxveiðirétt í ánum í 300 ár. Reykjavíkurborg keypti ekki árnar fyrr en árið 1906.

Margar göngubrýr eru í Elliðaárdalnum, bekkir og bæði leik- og hreystitæki.

Stutt er síðan búið var til ansi skemmtilegt leiktæki úr tré í dalnum. Það er í mynd risa sem hefur fengið heitið Búri í höfuðið á fossinum sem þar er rétt hjá. Engu er líkara en að Búri sé að skríða upp úr jörðinni. Hægt er að setjast í lófa hans, ganga inn í gin hans og klifra ofan á höfði hans. Myndin hér að ofan er einmitt af Búra við Búrfoss.

Kermóafoss er líklega með þekktari fossum í Elliðaárdalnum ásamt Búrfossi. Fossinn nýtur mikilla vinsælda hjá fjölskyldum og hafa börn gaman af því að leika sér í vatninu enda umhverfis ævintýralegt.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd