Reykjanes: Sog og Spákonuvatn

Reykjanes - Sog

Reykjanes býður ýmsa útvistarmöguleika með fjölskyldunni, t.d. göngutúr um hin lítríku Sog.

Reykjanes lumar náttúruperlum og er að mörgu leyti vannýtt útvistarparadís fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu og öllu suðvesturlandi. Frá Reykjavík tekur ekki nema háltíma til klukkutíma að keyra að mörgum af bestu útivistarsvæðum Reykjaness.

Dæmi um eitt slíkt eru hin fögru Sog í jaðri Núpshlíðarháls, skammt frá Trölladyngju og Grænudyngju. Sogin eru í raun leirgil sem ber merki um mikinn jarðvarma og eldvirkni. Gilið er lítríkt og fallegt enda stundum kallað litlu Landmannalaugar. Ekki eru þar neinir hverir á yfirborðinu en sums staðar má þó finna brennisteinslykt og maður á auðvelt með að ímynda sér að stutt sé niður á bullandi leir og gufustróka. Eftir gilinu rennur lækur en þetta er eitt af sárafáum dæmum um rennandi vatna á yfirborði Reykjavnesskagans.

Til að komast í Sogin er best að keyra veginn upp að Keili og svo áfram upp með Höskuldarvöllum þar til vegurinn endar á bílastæði við eina af  ónýttum tilraunaborholum á svæðinu. Skammt frá bílastæðinu er Sogsel sem er nokkuð heillegur og fallegur eldgígur sem gaman er að skoða.

Reykjanes er útivistarparadís

Eftir að hafa gengið upp Sogin er ágætt að fylgja göngustíg sem liggur til norðurs og austurs í átt að Grænavantseggjum og síðan niður að Spákonuvatni. Spákonuvatn er lítið gígvatn og við hlið þess stendur lítil tjörn sem kölluð er ýmist Sesselíutjörn eða Litla-Spákonuvatn.

Frá Spákonuvatni er svo stuttur spölur eftir göngustíg aftur niður að bílastæðinu. Þetta er skemmtilegur hringur og göngutúr við hæfi ungra sem aldinna, hárra sem lágra. Göngutúrinn má svo auðveldlega lengja og teygja í ýmsar áttir fyrir þá sem vilja og þurfa meiri hreyfingu.

Dæmi um viðbót væri að ganga lengra til suðurs inná Núpshlíðarhálsinn og fá þá útsýni niður að Djúpavatni og yfir á Sveifluhálsinn. Einnig er gaman að ganga að eða jafnvel umhverfis Grænavatn og síðan uppá Grænavatnseggjar. Þar er maður verðlaunaður með frábæru útsýni vítt og breytt um Reykjanes en vissara að fara með öllu með gát því sumstarðar eru klettar á báðar hliðar.

Fyrir þá sem eru enn í stuði eftir þetta má síðan skokka uppá Grænudyngju sem er um 400m há eða heldur hærri en Keilir sem stendur ekki langt frá. Góðviðris dögum að hausti er sannarlega vel varið í léttan göngutúr á Reykjanesi með fjölskyldunni.

Sjáðu nánari lýsingu og myndir af Sogunum og umhverfi hérna.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd