Reykjadalur: Göngutúr og heitt bað

 

Reykjadalur séður af Ölkelduhálsi

Reykjadalur ofan við Hveragerði er skemmtilegur útvistarstaður fyrir alla fjölskylduna. Enn er daginn ekki farið að stytta það mikið að vel er hægt að skreppa þangað af höfuðborgarsvæðinu eftir hefðbundinn vinnutíma. En svo er þetta líka tilvalin helgarútivist fyrir þá sem vilja gefa sér rýmri tíma.

Um tvær meginleiðir er að ræða ef stefnan er sett á Reykjadal. Sú sem flestir fara liggur upp frá Hveragerði. Þá er keyrt upp í gegnum bæinn og bílnum síðan lagt á bílastæði þar sem göngustígurinn byrjar. Hann er vel merktur og nær útilokað að villast enda fjölfarið.

Hin leiðin liggur ofan af Ölkelduhálsi. Sú leið er að mörgum talin skemmtilegri gönguleið enda hægt að ganga framhjá bullandi leirhverum. Akvegurinn uppá hálsinum getur reyndar verið svolítið grófur en fær flestum eða öllum bílum á þessum árstíma ef varlega er farið.

Reykjadalur á öllum árstímum

Reykjadalur skartar nú haganlegum trépöllum og tröppum við baðaðstöðuna þó ekki sé þar beinlínis nein aðstaða til að skipta um föt. Skiptar skoðanir hafa verið um uppbygginguna en víst er að pallarnir vernda umhverfið að einhverju leyti og minnka líkurnar á að maður fljúgi á hausinn í drullu eða röku eða frosnu grasi. Á sumrin getur fjöldi útlendra ferðamanna á svæðinu verið mikill en minnkar núna eftir því sem líður á haustið.

Fyrir þá sem sækjast eftir ævintýrum getur jafnvel verið spennandi að heimsækja staðinn að kvöldi til eftir að myrkur hefur skollið á . En þá er vissara að taka með sér vasaljós og halda hópinn svo enginn villist.

Hér eru meiri upplýsingar um Reykjadal.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd