Pistill: Við erum öll með sérþarfir!

Öll börn geta allt og tekið þátt í öllu þar til mögulega jafnvel kannski annað kann að koma í ljós. Börn með sérþarfir – börn með sérþarfir er orðnotkun sem tíðkast víða í samfélaginu okkar, bæði í skólakerfinu, æskulýðs- og tómstundamálum og tengt þátttöku barna í íþróttum. Ég veit ekki um neitt barn sem er ekki með sérþarfir – fullorðnir eru með sérþarfir, heldri borgara eru með sérþarfir – við erum öll með sérþarfir!

Öll börn eru með þarfir. En það er hlutverk okkar fullorðinna að mæta þörfum allra barna, finna lausnir og aðlaga umhverfið að barninu – en ekki öfugt. Það eru til fullt af flottum snillingum sem þurfa sérstaka nálgun og natni frá samfélaginu svo það njóti sín í leik og starfi. Við getum ekki ákveðið að einhver geti ekki tekið þátt ef við prófum okkur ekki áfram og þorum að taka áskorunum til að bæta lífsgæði allra barna. Barnið þorir alltaf ef það fær rétta aðstoð og uppbyggilega þjálfun.

 

Útfært skólasund

Sem dæmi þá getur barn með litla hreyfigetu alltaf tekið þátt í skólasundi – þó svo að sundnámið verði með aðlögunum og útfærslum þá er barnið að taka þátt í félagslegri athöfn, það tekur þátt í leikjum og stöðvaþjálfun, tekur þátt í umræðum um sundaðferðir, lærir ný orð og hugtök sem notuð eru í sundi og síðast en ekki síst þá fær barnið heilsufarslegan ávinning fyrir sig og sína heilsu.

Það sama á við um hreyfingu og íþróttir sem fara fram utandyra sem innandyra. Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg – þetta er nefnilega allt spurning um viðhorf okkar sem leiðbeinum og hæfileika okkar til að sjá tækifæri í stað vanda – tækifæri fyrir alla.

Njótið dagsins.

sab05

Höfundur er Sabína St. Halldórsdóttir

M.ed í íþrótta- og heilsufræðum. Hún er höfundur handbókarinnar Færni til framtíðar. Bók hefur að geyma hugmyndir að því hvernig örva megi hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi. Sabína heldur fyrirlestra, námskeið og ráðgjöf varðandi útikennslu og hreyfifærni barna.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd