Umræður um styttingu vinnuvikunnar hafa átt sér stað um langt skeið. Kvennalistinn sendi frá sér þingsályktunartillögu um málið árið 1993 en fyrstu tillögur í þessum efnum voru lagðar fram á Alþingi árið 1987. Fulltrúar atvinnurekenda og stéttarfélaga sýndu málinu aukinn áhuga árið 2014 og nú hefur verið lagt fram frumvarp til laga um að stytta vinnuvikuna úr átta stundum í sjö.
Stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til að kanna með tilraunaverkefni hvort unnt sé að stytta vinnutíma án launaskerðingar og ná fram gagnkvæmum ávinningi starfsfólks og stofnana. Markmiðið er að kanna hvort stytting vinnuviku úr 40 vinnustundum í 36 stundir leiði til ávinnings.
Hvernig samfélagi viljum við búa í?
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins og markaðsstjóri Kjörís, telur raunhæft að stytta vinnudaginn í sjö klukkustundir. Hún nefndi í viðtali að á Norðurlöndunum sé framleiðni meiri, vinnuvikan styttri og laun hærri. Hún sagði að auka þyrfti framleiðni en það gæti verið hluti af því að auka velferð hinna vinnandi stétta að stytta vinnutíma og auka lífsgæði. Með samningum um sveigjanlegri vinnutíma gefst tækifæri til að auka framleiðni á hverja unna vinnustund. Forsendur fyrir aukningu í framleiðni eru tækni og menntun og því mikilvægt að hlúa vel að menntakerfinu. Ef stytta á vinnudaginn og auka framleiðni þá er það sameiginlegt verkefni allra.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og flutningsmaður tillögu frumvarps til laga um að fækka vinnustundum landsmanna úr átta í sjö, segir að á Íslandi vinni fólk hartnær 500 tímum meira en t.d. Þjóðverjar og 400 tímum meira en Hollendingar. Þetta séu þjóðir sem við eigum að bera okkur saman við. Samkvæmt mælingum á hlutfalli vinnustunda í daglegu lífi séu Íslendingar hins vegar nær Ungverjum og Eistum.
Björn Leví segir að færri vinnustundir hafi samkvæmt sumum rannsóknum leitt til betri framleiðni. En eru ekki önnur og ekki síður mikilvæg rök sem skipta hér máli? Velferð og menntun byggja ekki einungis á framleiðni. Í hvernig samfélagi viljum við ala börnin okkar upp í?
Langur vinnudagur og lítil afköst
Íslendingar eru þjóða lengst í vinnunni en afkasta þó ekki eins miklu. Einnig erum við með einn lengsta dagvistunartíma barna. Rannsóknir sýna að með styttri vinnudegi geta náðst fram umtalsverð jákvæð áhrif á lífsgæði, hagsæld, atvinnutækifæri og jöfnuð. Veitir atvinnulífið foreldrum nauðsynlegt svigrúm til að hugsa um fjölskylduna? Þá er ekki einungis um börn að ræða heldur geta líka verið veikir eða aldraðir ættingjar sem þarf að sinna. Er lögð næg áhersla á samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs? Búum við í barnvænu samfélagi?
Dagvistunartími barna hefur lengst töluvert frá árinu 1998 og hefur fjöldi barna sem dvelja á leikskólum í sjö til tíu klukkustundir á dag margfaldast frá þeim tíma. Á sama tíma fá leikskólabörn minna pláss í fermetrum talið en fyrir rúmum tveimur áratugum samkvæmt rannsókn Kristínar Dýrfjörð, dósents við Háskólann á Akureyri. Nýlegar rannsóknir sýna að ungum konum fannst erfiðara árið 2012 að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf í samanburði við árið 2007.
Foreldrar í kapphlaupi við tímann
Á Íslandi vinna flestir foreldrar fulla dagvinnu og margir hverjir talsverða yfirvinnu. Foreldrar eru í sífelldu kapphlaupi við tímann og sumir í stríði við samviskuna. Fyrst á morgnana þarf að koma öllum á sinn stað í skóla og vinnu. Síðan er að skila sínum vinnustundum og í kjölfarið getur atburðarásin orðið fjölbreytt. Sum börn eru í tómstundum eftir skóla og foreldrar eru oft sjálfir í einhvers konar tómstundariðju eftir vinnu. Þegar heim er komið er lítill tími til að eiga gæðastundir. Snæða þarf kvöldmat, börnin þurfa að lesa og sinna heimavinnu og svona mætti áfram telja.
Hraði og streita taka oft völdin og þegar vinnustundum er skilað á vinnustaðnum eru ótaldar þær vinnustundir sem inna þarf af hendi innan veggja heimilisins. Þar við bætast svo gæðastundirnar sem verða því miður færri fyrir vikið. Hvaða umhverfi erum við að skapa börnunum okkar?
Höfum við gengið veginn til góðs?
SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu krafðist þess á aðalfundi félagsins í mars 2013 að stjórnvöld, verkalýðshreyfing og atvinnurekendur tækju höndum saman um leiðréttingu kynbundins launamunar og styttingu vinnuviku í 36 stundir.
Í maí 2014 samþykkti borgarstjórn tillögur Vinstri grænna um að setja á laggirnar starfshóp sem hefði það hlutverk að útfæra tilraunaverkefni um styttingu vinnudags án launaskerðingar og í mars 2015 hófst það tilraunaverkefni.
Þetta er í fyrsta skipti á Íslandi sem farið er í beinar aðgerðir til að stytta vinnutíma án þess að skerða launakjör. Verkefnið nær til tveggja starfsstaða borgarinnar; annars vegar Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og hins vegar Barnaverndar Reykjavíkur og skemmst er frá því að segja að gríðarleg ánægja hefur verið með verkefnið meðal starfsfólks og engar kvartanir hafa borist frá samstarfsaðilum né þjónustuþegum. Einnig segir framkvæmdastjóri hjá Barnavernd Reykjavíkur að starfsfólk mæti endurnært til vinnu á mánudegi.
Aðrar þjóðir ganga lengra
Athyglisvert er þó að á meðan Íslendingar eru að stíga þessi fyrstu skref þá eru aðrar þjóðir að ganga enn lengra. Borgaryfirvöld í Gautaborg eru að skoða styttingu vinnuvikunnar niður í 30 klukkustundir í stað 40, eins og verið hefur. Hefðbundinn vinnudagur yrði þá sex klukkustunda langur í stað átta klukkustunda eins og gerist víðast hvar í dag.
Litið er á þetta sem tilraunaverkefni sem gengur út á að skoða hvort Svíar nái mögulega betri árangri með styttri vinnudegi. Sama vinna yrði unnin en meiri framlegð fyrir hverja unna stund. Svíar eru þó ekki þeir fyrstu til að reyna fyrir sér í þessum efnum. Þannig hafa Belgar og Hollendingar nokkuð lengi unnið 30 klukkustunda vinnuviku að meðaltali og í Þýskalandi eru meðalstundir vinnuviku 35 klukkustundir en ekki 40.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar var meðalfjöldi unninna vinnustunda á Íslandi 40,2 í september 2015 og stytting vinnuvikunnar hefur ekki verið áhersluatriði í þeim kjarasamningum sem unnið hefur verið að undanfarið þar til nú í október 2015 að samið var um í kjarasamningum að félagsmenn SFR stéttarfélags, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna muni taka þátt í tilraunaverkefni sem miðar að því að stytta vinnuvikuna um fjórar klukkustundir.
Allra hagur
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs snertir líf okkar flestra og mikilvægt er að meta sífellt hvernig gengur. Íslenskt atvinnulíf þarf að bjóða upp á sams konar aðstæður og þekkjast í þeim löndum sem við viljum miða okkur við.
Vinnuhópur á vegum velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs lagði fram tillögur um markvissar aðgerðir til að auðvelda fólki að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og kom greinargerð vinnuhópsins út í apríl 2013. Mikilvægt er að byggja á þeirri vinnu og sjá til þess að tillögur um úrbætur komist til framkvæmda. Orð eru til alls fyrst en nú þegar hefur mikið verið talað og ritað.
Nú er komið að því að framkvæma.
_______________________
Höfundur er Hrefna Sigurjónsdóttir
Hrefna er framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.