Pistill Sabínu: Nú er best að fara út að leika

Kunnið þið að fara út og leika? Iss, það rifjast fljótt upp.

N–vitamin er eitt af okkar allra nauðsynlegustu vítamínum. Engin skyndilausn er til að ná sér í vítamínið og engar skyndilausnir til sem virka.

Náttúran okkar er rík af N-vítamíni og þar er nóg af ráðlögðum dagsskammti fyrir alla.

Við erum eflaust öll að berjast við einhverskonar samviskubit þessa dagana enda erum við öll að leggja okkur fram um að halda mörgum boltum á lofti – mörgum á sama tíma. Dagleg rútína á heimilinu allt í einu orðin önnur en við myndum óska okkur og einhvern vegin virðist stundum flest vera á hvolfi.

Það er gaman að leika sér í snjónum.

Við megum samt ekki berja okkur niður þó skjátími allra sé allt í einu meiri en vanalega. Við bætum upp skjátímann bara í sumar þegar þessi vá er yfirstaðin og sól hefur hækkað á lofti.

N-vítamínið verðum við hinsvegar að fá og það á við okkur öll, bæði börn og fullorðna.

Það er því mjög góð tilbreyting frá uppstokkaðri rútínu að njóta útiveru saman sem fjölskylda. Bara að fara út að leika. Það eru okkur nauðsynlegt. Við þurfum að róa okkur niður, anda rétt og anda að okkur hreinu lofti. Það gerum við úti.

Sólin og útiveran gefur okkur kannski N-vítamínið. En samvera með öðrum styrkir félagslegu og andlegu þættinum.

Við erum nefnilega fyrirmyndirnar og smitum börnin okkar af því að finna fyrir velliðan af fersku lofti.

Gott er að hafa til hliðsjónar að almennar ráðleggingar kveða á um ferskt loft og hreyfingu og 60 mínútna púls af miðlungs eða mikilli ákefð fyrir börn og ekki minna en 150 mínútur á viku fyrir fullorðna.

En allar 10 mínútur eru frábærar, einn hringur í kringum húsið er æði og 30 mínútur eru meiriháttar. Meira að segja fimm mínútur geta breytt deginum og gert mikið fyrir andlega líðan fólks.

Það er frískandi að láta goluna leika um kinnarnar.

Því vil ég að lokum segja ykkur leyndarmál – og það er kannski furðulegt en dagsatt.

Þegar ég var barn þá opnaði ég stundum útidyrnar heima hjá mér til að finna ferskan andvara leika um andlitið, bæði pínulítinn gust og hávaðarok sem barði á mér. Þetta létti mér lundina og hreinsaði hugann fyrir svefninn.

Ég geri þetta enn í dag. Það gleður mig í hvert sinn – og svo sef ég alltaf miklu betur!

Hvort sem þið gerið skipulag fyrir daginn eða ekki þá hvet ég ykkur til að taka inn N-vítamin á hverjum degi og spara ekki við ykkur.

_______

Höfundur er Sabína Steinunn. Halldórsdóttir, M.ed í íþrótta- og heilsufræðum. Hún er höfundur bókanna Færni til framtíðar og Útivera ásamt Auði Ýr, sem bókaútgáfan Salka gaf út á síðasta ári. Bókin hefur að geyma hugmyndir að því hvernig örva megi hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi. Sabína heldur jafnframt fyrirlestra, námskeið og ráðgjöf varðandi útikennslu og hreyfifærni barna.

Viltu lesa fleiri pistla eftir Sabínu?

Hér eru nokkrir:

Vertu fyrirmynd barnsins og farðu út að leika

Litríkar freistingar í náttúrunni

„Börn þekkja í dag orðið fleiri teiknimyndapersónur en heiti jurta“

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd