Pistill: N – vítamín til framtíðar

Kræklingar eru herramannsmatur. Það er gaman að tína hann ef maður kann það. MYNDIR / Ferðafélag barnanna.

Það er hollt og gott fyrir barnið að upplifa náttúruna. MYND / Ferðafélag barnanna.

Tækifæri barns til að læra og leika sér í náttúrulegum aðstæðum eykur áhuga þess á því viðfangsefni sem það fæst við hverju sinni. Barnið þarf að fá viðfangsefnið í hendur, handfjatla það, snúa því á alla mögulega máta og finna fyrir því á eigin skinni eða skynfærum. Barn öðlast reynslu úti í náttúrunni sem hvetur það enn frekar til könnunar á ótroðnum slóðum og færir því meiri þekkingu til langs tíma bæði líkamlega, andlega og félagslega.

Þetta er meiri upplifun, þekking og reynsla en nokkur skjátími getur veitt barninu.

Lærum í náttúrunni

Þrátt fyrir alla bölsýni út í tækninýjungar verðum við að gera okkur grein fyrir því að tækni og rafeindabúnaður mun ávallt vera til staðar og halda áfram að þróast. Við verðum einfaldlega að lifa með því.

Til að vega upp á móti truflandi tækninni er mikilvægt að gefa börnum tækifæri til að læra utandyra og skapa þeim ákjósanlega færni til framtíðar núna. Skapa þeim aðstæður þar sem þau fá hvíld frá skjánum, fá aukin hjartaafköst, betri hreysti, sterkara ónæmiskerfi, öðlast meiri einbeitingu og síðast en ekki síst tækifæri til að næra hugmyndaflug sitt.

Hugsum skýrar í náttúrunni

Rannsóknir sína að við hugsum skýrar úti í náttúrunni og bætum úthald okkar til muna fyrir verkefni sem krefjast þess að við einbeitum okkur.

Ég þreytist seint á því að mæla með útiveru fyrir börn og mikilvægi þess að þau fái N(nátturu) vítamín í kroppinn til að læra og þroska líkama sinn á náttúrulegan máta. Ert þú í sama liði?

 

_______________________

sabína

Höfundur er Sabína St. Halldórsdóttir

M.ed í íþrótta- og heilsufræðum. Hún er höfundur handbókarinnar Færni til framtíðar. Bókin hefur að geyma hugmyndir að því hvernig örva megi hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi. Sabína heldur jafnframt fyrirlestra, námskeið og ráðgjöf varðandi útikennslu og hreyfifærni barna.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd