Pistill Sabínu: Litríkar freistingar í náttúrunni

13728408_10157133965395035_992979476_o

Náttúran skartar sýnu fegursta þessa dagana. Óhætt er að segja að umhverfið sé kræsingum hlaðið fyrir skynfærin okkar. Hvert sem litið er má sjá ögrandi staði, náttúrulegar þrautabrautir og spennandi efnivið.

Þarna skapast skemmtileg tækifæri til að örva hreyfifærni barna.

13702322_10157133965250035_1552786258_o (1)

Bandaríski rithöfundurinn Richard Louv  hefur fjallað um rannsóknir á skynþroska og frjálsan leik barna um áraraðir. Hann bendir á í skrifum sínum að börn nú á dögum þekki fleiri teiknimyndapersónur en blóm og jurtir.

Hann segir að börn þrói jafnt og þétt með sér náttúruónæmi fái þau ekki tækifæri til að læra og leika í náttúrunni.

Louv segir jafnframt að snjalltækin séu jafnt og þétt að taka yfir frítíma og frjálsan leik barna og því dýrmætur tími sem fari til spillis. Hvað veldur – fara íslensk börn á mis við frjálsan leik í náttúrunni?

13702302_10157133965370035_484713765_o

Hreyfing úti í náttúrunni er mjög ákjósanleg til að efla skynþroska barna. Því fjölbreytt hreyfing eflir hreyfifærni þeirra á sama tíma. Að sama skapi eflist skynþroskinn í gegnum mismunandi áreiti sem berast til skynfæra líkamans.

Það þýðir auðvitað að öll börn þurfa að fá tækifæri til að eflast óáeitt og á eigin forsendum úti í náttúrunni.

Leitum við langt yfir skammt! Það er auðvelt að slá margar flugur í einu höggi út í náttúrunni og samtvinna alla þætti skynþroskans í góðri gönguferð með smá tvisti.

Ég ætla að gefa ykkur einfalda og skemmtilega hugmynd.

Leikur í náttúrunni

Þið hvetjið barnið til að finna ákveðinn fjölda af ólíkum jurtum eða litum af blómum í umhverfi sínu. Barnið fær þá frjálsar hendur með það hvar það leitar og hvað það vill taka með sér heim. Meðan á leitinni stendur ferðast barnið um umhverfið og kemst án efa í aðstæður sem reyna á færni þeirra, vöðva, liðamót, jafnvægi, áræðni og hjartaafköst.

Barnið kemst í tæri við ólíka liti, áferð, stærðir, lögun, finnur nýjar lyktir, heyrir hljóð og bragðar kannski á sumum jurtum og allt hefur þetta jákvæð áhrif á skynfærin.

13717976_10157133965440035_301982013_o

Þegar heim er komið gefst ykkur tækifæri til að halda ófromlega náminu áfram, ræða um þau blóm og jurtir sem barnið fann, festa heiti þeirra á minnið með aðstoð handbóka eða vefsíðna sem fjalla um íslenskar jurtir og samveran skiptir jafnvel hvað mestu máli á þessum tímapunkti.

Það besta við þessa einföldu hugmynd af gæðastund er að hún kostar ekki krónu.

 

_______________________

sabína

Höfundur er Sabína Steinunn. Halldórsdóttir, M.ed í íþrótta- og heilsufræðum. Hún er höfundur handbókarinnar Færni til framtíðar. Bókin hefur að geyma hugmyndir að því hvernig örva megi hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi. Sabína heldur jafnframt fyrirlestra, námskeið og ráðgjöf varðandi útikennslu og hreyfifærni barna.

Deilið þessu:

One Response to Pistill Sabínu: Litríkar freistingar í náttúrunni

  1. Pingback: Pistill Sabínu: Litríkar freistingar í náttúrunni – Betri fréttir

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd