Pistill: Hvernig stuðlum við að eflingu læsis?

Hægt er að efla áhuga barna á lestri með ýmsum hætti. Mikilvægt er að efnið sé skemmtilegt. Það má til dæmis gera með því að gerast áskrifandi að Andrési önd eða öðrum áhugaverðum blöðum. En umfram allt þurfa foreldrar að vera fyrirmynd og vera sjálf dugleg að lesa bækur.

Hægt er að efla áhuga barna á lestri með ýmsum hætti. Mikilvægt er að efnið sé skemmtilegt. Það má til dæmis gera með því að gerast áskrifandi að Andrési önd eða öðrum áhugaverðum blöðum. En umfram allt þurfa foreldrar að vera fyrirmynd og vera sjálf dugleg að lesa bækur.

Senn nálgast jólahátíðin með ljósum, gleði og samveru. Í mörgum pökkum leynast bækur en einnig er tilvalið að gera sér ferð á bókasafnið og byrgja sig og sína upp af góðu lesefni. Kjörið er að nýta jólafríið í að lesa fyrir börnin og hlusta á þau lesa en læsi er í deiglunni um þessar mundir og verður vonandi áfram.

Íslendingar hafa löngum litið á sig sem bókmenntaþjóð en vísbendingar um að læsi íslenskra barna hafi hrakað ættu að vekja alla foreldra til umhugsunar. Þjóðarsáttmáli um læsi hefur nú verið undirritaður af mennta- og menningarmálaráðuneyti, sveitarfélögum og fulltrúum foreldra en ráðuneytið mun semja sérstaklega við Heimili og skóla – landssamtök foreldra um aðkomu samtakanna í að virkja foreldra í stuðningi við læsi barna sinna.

Foreldrar verða líka að lesa

Í Hvítbók mennta- og menningarmálaráðherra eru boðaðar umbætur í menntamálum og eitt helsta markmiðið er að efla læsi. Síðustu PISA niðurstöður sýna að lesskilningur íslenskra nemenda hefur dalað og nýlega bárust fréttir af því að þeim sem aldrei lesa bækur hafi fjölgað úr 7% í 13,3% á fjórum árum, eða um 90%. Þá er átt við fullorðna. Hér hringja greinilega viðvörunarbjöllur og mikilvægt er að bregðast við. Hvað geta foreldrar gert til að efla læsi barna sinna?

Hlustum á börn lesa bækur

  • Lesum sjálf. Mikilvægt er að vera góðar fyrirmyndir. Það skiptir mun meira máli hvað við gerum heldur en hvað við segjum. Ef við segjum börnunum okkar sífellt að lesa meira en lyftum aldrei upp bók eða dagblaði sjálf þá er líklegt að þau tilmæli hafi takmörkuð áhrif.
  • Lesum fyrir börn. Sjaldan er góð vísa of oft kveðin og það á svo sannarlega við hér. Miklu máli skiptir að lesa upphátt fyrir börnin okkar frá blautu barnsbeini. Þau læra af því en auk þess er það góð samverustund barns og foreldris. Þetta er í raun einföld leið til að sameina gagn og gaman og eiga saman gæðastundir. Einnig er gott að halda í þessa hefð eins lengi og hægt er. Lestur örvar ímyndunarafl barna og eykur skilning þeirra á umheiminum. Með því að byggja traustan lestrargrunn erum við að vinna í haginn fyrir skólagönguna og árangur almennt.
  • Hlustum á barnið lesa. Öll þekkjum við heimalesturinn og að merkja í litla heftið sem kemur frá skólanum. Mikilvægt er að hlusta reglulega á börn lesa og gera það með vakandi athygli. Gott er að spyrja aðeins út í textann til að ganga úr skugga um að barnið skilji það sem það er að lesa og með því að sýna áhuga eru meiri líkur á að okkur takist að örva áhuga barnanna. Reglulegur heimalestur er gríðarlega mikilvægur og í raun mikilvægari en margir gera sér grein fyrir. Verum því dugleg við að fylgja þessu eftir, árið um kring. Miklu skiptir að halda áfram að lesa á sumrin og í öðrum fríum. Ágætt er að miða við minnst korter á dag.
  • Gott aðgengi að lesefni. Líklegra er að börn lesi ef þau hafa eitthvað skemmtilegt að lesa. Sjálfsagt er að eiga bækur heima fyrir til að velja úr þegar andinn kemur yfir okkur og börnin en einnig getur verið sniðugt að gerast áskrifandi að áhugaverðu efni. Til dæmis er hægt að gerast áskrifandi að Andrési önd eða öðrum áhugaverðum blöðum og tímaritum sem gætu vakið áhuga barna. Einnig má auðveldlega útvega sér bækur í gegnum netið ef til er Kindill eða iPad á heimilinu. Auk þessa er gaman að gera sér ferð á bókasafn, lesa þar og/eða fá lánaðar bækur. Þau börn sem búa við þröngan kost og hafa ekki gott aðgengi að bókum eru sérstaklega viðkvæmur hópur. Þá er rétt að nefna að börn geta fengið bókasafnsskírteini endurgjaldslaust. Einnig er mikilvægt að kennarar og starfsmenn skóla séu vakandi fyrir slíkum aðstæðum og veiti þar stuðning. Til eru samtök sem styðja sérstaklega við kaup á skólagögnum en annars konar stuðningur skiptir ekki síður máli. Niðurstöður rannsókna í þessa veru eru allar á sömu leið – aðgengi að bókum bætir læsi.
  • Leyfum börnum að velja bækur. Marga skortir viljann eða lestrarhvötina. Til að örva þá hvöt er nauðsynlegt að leyfa börnum að hafa hönd í bagga með hvað þau lesa. Um leið og lestrarefnið snýst um eitthvað sem vekur athygli þeirra og áhuga eykst hvatinn til að halda áfram að lesa. Fyrst kemur viljinn og getan fylgir í kjölfarið.
  • Leitum hjálpar. Ef okkur grunar að barnið okkar eigi við lestrarörðugleika að stríða, eins og t.d. lesblindu, þá er mikilvægt að leita hjálpar snemma. Því fyrr sem barnið fær aðstoð því betra. Hins vegar myndast oft biðlistar og t.a.m. getur tekið langan tíma að komast að hjá talmeinafræðingi. Þá má nýta tímann í eigin rannsóknir. Á netinu er mikið til af efni og góðum ábendingum. Einnig getur verið gott að ræða við aðra foreldra í sömu sporum. Mestu skiptir að leita sér upplýsinga og aðstoða barnið eftir fremsta megni í samvinnu við skólann.

Að lokum viljum við hjá Heimili og skóla benda á skemmtilegt læsisbingó fyrir jólin sem við munum kynna á næstu dögum. Markmiðið er að hvetja börn til þess að lesa í jólafríinu til að viðhalda þeirri færni sem þau hafa nú þegar náð. Bingóspjöldin verða aðgengileg á heimasíðu okkar, heimiliogskoli.is, á næstu vikum og verða einnig send til skólanna.

_______________________

Hrefna Sigurjónsdóttir-2

Höfundur er Hrefna Sigurjónsdóttir 

Hrefna er framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra. 

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd